Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ágætis hlustunarpartí 1999

Mynd: Sigur Rós / RÚV

Ágætis hlustunarpartí 1999

13.06.2019 - 22:00

Höfundar

Í Konsert á Rás 2 í kvöld förum við tuttugu ár aftur í tímann og fögnum með hljómsveitinni Sigur Rós, útgáfu hljómplötu þeirra, Ágætis byrjunar sem þá var nýútkomin.

Rás 2 býður upp á útgáfutónleika Sigur Rósar vegna hljómplötu þeirra, Ágætis byrjunar í kvöld en tónleikarnir voru í Íslensku óperunni við Ingólfsstræti, laugardagskvöldið 12. júní árið 1999. Sigur Rós bauð í hlustunarpartí af tilefni tuttugu ára afmælis hljómplötunnar 12. júní réttum tuttugu árum síðar, og hljómuðu hinar tuttugu ára gömlu upptökur Rásar 2 endurhljóðblandaðar og fínar í sama sal, á sama sviði í sama húsi sem kallast nú Gamla Bíó.

Samhliða afmælinu og endurhljóðblönduninni kemur út afmælisútgáfa af Ágætis byrjun í þremur útfærslum, sjö vínylplatna pakka sem inniheldur upprunalegu plötuna, endurhljóðblönduðu útgáfutónleikana ásamt öðru, fjögurra geisladiska pakka með sama efni og áður óútgefnum lögum og svo tvöföld vínylplata með stafrænni útgáfu af áður útgefnu efni. Sigur Rós samanstóð fyrir tuttugu árum síðan af þeim Jóni Þór Birgissyni, Georg Holm, Kjartani Sveinssyni og trommaranum Ágústi Ævari Gunnarssyni sem lék þarna sína síðustu tónleika með sveitinni en hann hafði ákveðið að segja skilið við Sigur Rós og snúa sér að öðru.

Tónleikana má heyra í heild sinni hér að ofan en umsjónarmaður Konserts er Ólafur Páll Gunnarsson.

Tengdar fréttir

Tónlist

Troðfullt hús yfir 20 ára tónleikaupptökum

Menningarefni

„Við gerum þetta á meðan þetta er gaman“

Tónlist

„Ætluðum ekkert að stofna þessa hljómsveit“