Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Afvopnast ekki í skugga efnahagsþvingana

29.09.2018 - 16:41
epa06607451 North Korean Foreign Minister Ri Yong Ho  (C) leaves the Swedish goverment building Rosenbad in central Stockholm, Sweden, 16 March 2018. Ri Yong Ho is in Sweden to meet his Swedish counterpart Margot Wallstrom and other politicians for talks
Ri Jong Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu. Mynd: EPA-EFE - TT
Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður Kóreu, segir af og frá að land sitt afvopnist meðan Bandaríkjastjórn þrýsti enn á um efnahagsþvinganir gegn landinu. Þetta sagði Ri þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.

Ri sagði að stefna stjórnvalda í Washington kæmi í veg fyrir árangur í viðræðum um að Kóreuskaginn verði kjarnorkuvopnalaust svæði. Bandaríkjastjórn krefst þess að Norður Kórea láti af kjarnorkuvopnaáætlun sinni áður en látið verður af efnahagsþvingunum. Ri sagði að ekki kæmi til greina að Norður Kórea afvopnist nema traust ríki milli þjóðanna tveggja. Hann sagði jafnframt að áform Bandaríkjamanna um að þvinga Norður Kóreu til afvopnunar væru draumórakennd.

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hafa ávarpað allsherjarþingið í gær og í dag. Walid al-Moualem, utanríkisráðherra Sýrlands, fordæmdi í dag þátttöku bandarískra, franskra og tyrkneskra herja í borgarastríðinu í Sýrlandi. Ráðherrann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag. Þar kallaði hann bandarísku, frönsku og tyrknesku hersveitirnar hernámslið og krafðist þess að þær hyrfu á brott án tafar.