Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afturkallaði óþekktar framtíðar-refsiaðgerðir

23.03.2019 - 05:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti í gær að hann hygðist afturkalla boðaðar refsiaðgerðir gegn Norður Kóreu. Framan af var nokkuð óljóst hvaða refsiaðgerðir hann átti við, og nú er það fullkomlega óljóst.

Í gær, föstudag, skrifaði forsetinn færslu á Twitter þar sem hann sagði  fjármálaráðuneytið bandaríska hafa tilkynnt nýjar, stórfelldar refsiaðgerðir gegn Norður Kóreu „í dag" - og sagðist hafa gefið fyrirmæli um að þær yrðu afturkallaðar.

Fjármálaráðuneytið tilkynnti hins vegar engar nýjar refsiaðgerðir á föstudag, og var því gengið út frá því að Trump ætti við refsiaðgerðir sem tilkynntar voru á fimmtudag gegn tveimur kínverskum skipafélögum, sem brutu gegn viðskiptabanninu. Eftir nokkurt japl, jaml og fuður kom svo á daginn að forsetinn átti við einhverjar enn aðrar aðgerðir, sem ætlunin var að grípa til í náinni framtíð. Ekkert hefur verið upplýst um það, hvaða aðgerðir það áttu að vera eða gegn hverjum þær áttu að beinast.

Talskona Hvíta hússins, Sarah Sanders, sagði fréttamönnum að Trump forseta líkaði við Kim Jong-Un og fyndist þessar refsiaðgerðir ekki nauðsynlegar, og lét hún þar við sitja.