Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aftur ríður fellibylur yfir Mósambík

26.04.2019 - 04:36
epa07527793 A handout photo made available by the NASA shows a Terra/MODIS satellite image of cyclone Kenneth as it approaches Mozambique, 25 April 2019. Cyclone Kenneth is expected to make landfall in eastern Africa on 25 April evening.  EPA-EFE/NASA WORLDVIEW / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - NASA WORLDVIEW
Hvirfilvindurinn Kenneth náði landi í Mósambík í gær. Á leiðinni til Mósambík reið stormurinn yfir eyríkið Kómoros þar sem þrír létust vegna óveðursins. Um 30 þúsund manns hafa flúið heimili sín á svæðum sem yfirvöld í Mósambík telja að verði fyrir barðinu á Kenneth. Íbúar í Mósambík eru enn að jafna sig eftir síðasta hvirfilbyl sem reið yfir landið, Idai. Sá varð 900 að bana í Mósambík, Malaví og Simbabve. Yfir þrjár milljónir urðu að leita eftir neyðaraðstoð af völdum Idai.

Kenneth kom að landi á norðurströnd Mósambík sem fjórða stigs fellibylur í gærkvöld. Vindhraði hefur náð yfir 60 metrum á sekúndu. BBC hefur eftir yfirvöldum í landinu að yfir 680 þúsund manns gætu orðið í vegi Kenneth á meðan hann fer yfir landið í dag og á morgun. Talið er að stormurinn fari hægt yfir, og því verður mikil úrkoma á norðanverðu landinu næstu daga. Að sögn Sameinuðu þjóðanna er búist við yfir 600 millimetra úrkomu næstu daga, sem er tvöfalt á við það sem reið yfir hafnarborgina Beira sunnar í landinu þegar Idai gekk yfir. Þá hefur BBC eftir frönsku veðurstofunni að ölduhæð við norðausturströnd Mósambík geti orðið fimm metrum hærri en vanalega.

Skólar verða lokaðir í norðausturhluta Mósambík, sem og syðst í nágrannaríkinu Tansaníu. Þá hefur fjölda flugferða verið aflýst vegna óveðursins.

Ástandið sunnar í Mósambík er enn alvarlegt eftir Idai, sem skall yfir landið um miðjan mars. Raflínur slitnuðu, tré rifnuðu upp og fjöldi húsa var lagður í rúst af storminum. Að sögn Sameinuðu þjóðanna eiga yfir milljón íbúar enn í erfiðleikum með að rétta úr kútnum eftir óveðrið. Þá greinir Al Jazeera fréttastofan frá því að víða séu konur neyddar til kynlífs í skiptum fyrir mat. Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, hvetur stjórnvöld í Mósambík til þess að rannsaka þessar ásakanir, en í sumum tilfellum eru þeir sem nýta sér neyð kvennanna tengdir ríkjandi stjórnvöldum í landinu.