Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Afstaða oddvita til mosku gæti aukið fylgi

Mynd með færslu
 Mynd:
Útspil á borð við yfirlýsingu Sveinbjarnar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík, um að afturkalla eigi úthlutun lóðar fyrir mosku, gætu fylkt fólki að flokknum sem hefur áhyggjur af innflytjendamálum. Þetta segir Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði við HÍ.

Hún segir að tilraun Frjálslynda flokksins til að taka upp harða stefnu í innflytjendamálum hafi ekki gefist vel. Flokkurinn orðið hálf eitraður og aðrir flokkar neitað að vinna með honum. Hins vegar bendir Hulda á að nýleg könnun hafi leitt í ljós að um 20% íslenskra kjósenda telji að innflytjendur séu alvarleg ógn við þjóðareinkenni Íslendinga.  

„Það er augljóslega til hópur kjósenda sem hefur af þessu miklar áhyggjur og ekkert óeðlilegt að svona yfirlýsingar gætu hugsanlega, ef þetta er nógu stórt mál fyrir fólki, fylkt því að þeim flokki. Það hefur í rauninni verið ákveðinn ráðgáta í íslenskum stjórnmálum hvers vegna það hefur aldrei þrifist flokkur sem ber mál sem þessi á borð og jafnan vekur þetta furðu t.d. erlendra stjórmálafræðinga, að það sé enginn slíkur flokkur á Íslandi.“