Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Afslappað, óformlegt, heimilislegt

Mynd: Nýlistasafnið / Nýlistasafnið

Afslappað, óformlegt, heimilislegt

19.10.2018 - 16:56

Höfundar

„Ég er utan af landi, og flestar ferðir fjölskyldunnar í höfuðborgina á uppvaxtarárunum snerust um Kringluna og IKEA en ekki söfn og myndlist,“ Nýlistasafnið sendir Víðsjá mánaðarlegar pistlasendingar í tilefni af fjörtíu ára afmæli safnsins út afmælisárið. Að þessu sinni er Birkir Karlsson, safneignarfulltrúi safnins höfundur.

Birkir Karlsson skrifar:

Fyrstu kynni flestra af Nýlistasafninu voru eflaust á Vatnsstíg, á Laugarvegi eða á Skúlagötu og sumir tala líka um Gamla-Nýló, eða Gamla-Gamla-Nýló, til aðgreiningar. Mín fyrstu kynni af safninu voru í Breiðholti og rekur samferðafólk mitt í íslenskum listheimi upp stór augu þegar þau heyra það. Þeim finnst það undarlegt miðað við aldur og fyrri störf að ég hafi ekki komið fyrr í Nýló. En ég er utan af landi, og flestar ferðir fjölskyldunnar í höfuðborgina á uppvaxtarárunum snerust um Kringluna og IKEA en ekki söfn og myndlist.

Ég kynntist starfsemi Nýló ekki almennilega fyrr en ég fór með samnemendum mínum í listfræði í heimsóknir á listasöfn höfuðborgarsvæðisins. Við fengum að skyggnast bakvið tjöldin, að skoða safneignargeymslurnar sem hýstu sjónrænan menningararf þjóðarinnar, með það að markmiði að setja sjálf upp sýningu. Geymslur safna eru stórskemmtilegir staðir en það var eitthvað sérstakt í gangi í Breiðholti. Andrúmsloftið í Nýló var afslappað, óformlegt, heimilislegt jafnvel. Ég upplifði ekki sömu stofnanatilfinningu og á hinum söfnunum, þarna var eitthvað annað í gangi.

Við fengum að velja okkur á hvaða safni við myndum setja upp sýningu og ég heillaðist mest af Nýló. Það sem situr eftir í mér er þó ekki stoltið við að stýra fyrstu sýningunni minni, á alvöru listasafni, heldur hversu mikið starfsfólk Nýló gaf af sér fyrir þetta pínulitla samstarf safns og skóla. Þau gáfu okkur óreyndu sýningastjórunum frjálsar hendur, við máttum sýna hvað sem við vildum úr safneigninni. Þau voru þolinmóð og hjálpsöm þegar kom í ljós að við kunnum hvorki að smíða, mála, né bora í veggi. Í Nýló voru engin vandamál, bara lausnir. Rúsínan í pylsuendanum var svo að sýningin fékk að standa í átta vikur. Samnemendur okkar, sem fengu sumir bara að sýna eitt listaverk, í einn dag, á kaffistofu eins listasafns höfuðborgarinnar, voru skiljanlega mjög afbrýðissamir.

Síðan þá hefur Nýló eiginlega tekið smátt og smátt saman yfir líf mitt. Þar, eins og annars staðar, vantar alltaf gott fólk og áður en ég vissi af var ég farinn að sitja yfir sýningum. Það var dásamlegt, að fá að eyða heilum sunnudegi umkringdur listaverkum – meira að segja þegar enginn kom á safnið. Það stóð svo til að flytja í nýuppgert Marshallhús úti á Granda og þá vantaði aukahendur, og auðvitað svarar maður kallinu, enda nýbúinn að læra að sparsla, mála og bora í veggi. Svo er sjálfboðavinna í þágu íslenskar myndlistar vissulega miklu meira spennandi en að liggja yfir textum eftir löngu látna franska heimspekinga.

Svo líður að því að það þarf að kjósa nýja stjórn safnsins og einhver laumar því að mér að það vanti alltaf gott fólk í stjórn Nýló. Fyrst fannst mér hugmyndin fjarstæðukennd, þar sem safnið á að heita listamannarekið og ég ekki listamaður. Svo fannst mér hugmyndin frábær þegar kom í ljós að fjöldi framboða væri jafn fjölda sæta í stjórn, þannig að ég yrði sjálfkjörinn. Á kjördag bættist þó við einn frambjóðandi, prófessor úr Listaháskólanum, og fannst mér þá öll von úti. Ég hélt kosningaræðu með risahnút í maganum. Ég man ekkert hvað ég sagði, örugglega einhver stór orð um að Nýló væri rými til listrænna tilrauna handan kapítalískra afla, vin í eyðimörkinni, eða eitthvað álíka esóterískt. Svo settist ég niður og sat stjarfur þangað til sessunautur minn, Bára, sem var líka í framboði og einnig mjög hrjáð af svikaraheilkenninu, bankaði í mig og spurði hvort við höfum ekki verið lesin upp.

Við vorum kjörin, og tókum sæti í stjórninni. Núna fæ ég að vera hluti af þessu góða fólki sem safnið samanstendur af. Frá upphafi hefur Nýló verið mistöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist og þarfnast því stöðugs streymis nýs góðs fólks. Nýló er nefnilega ekki ekki veggirnir sem mynda rýmið sem listaverkin eru sýnd í, hvort sem það er í miðbæ, úthverfi eða hipstervæddu-iðnaðarhverfi, heldur er Nýló fyrst og fremst fólkið sem sér til þess að það sé alltaf áhugaverðar sýningar á boðstólnum og að safneignin varðveitist fyrir komandi kynslóðir.