Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Afskipti ráðherra af lögreglu alvarleg

26.08.2014 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, telur að innanríkisráðherra ætti að segja af sér í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í bréfi umboðsmanns Alþingis. Undir það tekur Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Ljóst sé að ráðherra hafi haft afskipti af rannsókn lekamálsins.

Guðmundur bendir á að ráðherra hafi fullyrt að hún hefði ekki haft afskipti af rannsókn lögreglu á lekamálinu. Nú sé kominn fram vitnisburður lögreglu um hið gagnstæða. „Málið verður alltaf verra og verra eftir því sem meira kemur í ljós,“ segir Guðmundur. „Það var fullyrt að hún hefði ekki, að ráðherra hefði ekki haft afskipti af rannsókn málsins. Nú liggur fyrir vitnisburður frá lögreglu um að hún hafði afskipti, þannig að mér finnst það mikill áfellisdómur yfir málflutningi hennar í málinu,“ segir Guðmundur.

Hann segir réttast að ráðherrann segi af sér embætti. „Þó það væri ekki nema bara til að skapa frið um embættið, sem er mikilvægt embætti, embætti innanríkisráðherra, þá tel ég mikilvægt að hún stigi til hliðar.“ 

Ráðherrann hafi farið út fyrir mörk embættis síns

Undir þetta tekur Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. „Það er alveg ljóst út frá bréfi umboðsmanns að staðan er jafnvel alvarlegri en áður var talið,“ segir Katrín. „Það virðist alveg vera ljóst að þarna hafi ráðherra farið út fyrir mörk síns embættis í samskiptum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Það að umboðsmaður ákveður að taka upp rannsókn málsins, eykur enn alvarleika málsins,“ segir Katrín. Hún segir mikilvægt að umboðsmaður fái svigrúm til að ljúka þeirri rannsókn. 

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir á Facebook-síðu sinni að málið sé komið handan við mörk hinnar pólitísku umræðu. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Stjórnmál megi ekki trufla framgang málsins, sem snúist um afskipti ráðherra af rannsókn lögreglu á henni og pólitískum aðstoðarmönnum hennar.