Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Áfram verslun í Árneshreppi

04.10.2017 - 15:42
Árneshreppur , Kaupfélag Norðurfjarðar, vestfirðir, Strandir.
Útibú Kaupfélags Steingrímsfjarðar sem hefur nú verið lokað Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Tekist hefur að finna nýjan rekstraraðila í verslun í Árneshreppi á Ströndum en einu verslun sveitarfélagsins var lokað um mánaðamótin. Frá 1. nóvember þurfa íbúar því ekki lengur að aka 100 kílómetra í næstu verslun.

Langvarandi rekstrarhalli

Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík rak útibúið í Norðurfirði í Árneshreppi. Viktoría Rán Ólafsdóttir, kaupfélagsstjóri á Hólmavík, segir að Kaupfélagið hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að endurfjármagna erfið ár til að komast yfir langvarandi rekstrarhalla: „Við leituðum til bankastofnanna og meðal annars byggðastofnunar til að hjálpa okkur að komast yfir þetta og við endurfjármögnun þá gerði Byggðastofunun að skrúfað yrði fyrir allan leka.“

Snéru við neikvæðum rekstri á Drangsnesi

Rekstur útibúa á Drangsnesi og í Norðurfirði, hafði ekki staðið undir sér lengi. Viktoría segir að eftir fund með íbúum sveitarfélaganna síðasta haust hafi íbúar á Drangsnesi breytt og lagað sína verslun til að laða að fleiri viðskiptavini og auka tekjur hennar, sem hafi skilað árangri. Þá hafi bæjarhátíð verið endurvakin sem jók jafnframt tekjur kaupfélagsins. Útibúinu þar verður því ekki lokað. Hins vegar hafi viðsnúningur í Árneshreppi ekki tekist.

Tóks að finna nýjan rekstraraðlia

Árneshreppur er eitt fámennasta sveitarfélag landsins, með innan við fimmtíu íbúa, og vegurinn þangað er ekki ruddur yfir háveturinn. Sveitarfélagið hefur unnið því að finna nýjan rekstraraðila og Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti sveitarfélagsins, segir að það hafi tekist. Stefnt er að því að nýr rekstur hefjist frá 1. nóvember, innan tíðar verði veittar nánari upplýsingar um fyrirkomulagið.

Verslun verkefni Brothættra byggða

Nýlega varð Árneshreppur hluti af verkefni Byggðastofnunar, Brothættum byggðum, og Snorri Björn Sigurðsson, forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar, telur alveg víst að mál verslunar séu eitt af málefnum verkefnisins, það verði að vera verslun í byggðinni. Hugmyndafræði verkefnisins miði hins vegar að því íbúar finni lausnir. Fyrsti fundur verkefnastjórnar Brothættra byggða var haldinn í Árneshreppi í síðustu viku. 

Á meðan engin verslun er í sveitarfélaginu þurfa íbúar að aka 100 kílómetra til að komast í verslun - á meðan fært er. Annars fara með flugvél eða báti.