Áfram Ísland á E3

Mynd: RÚV / RÚV

Áfram Ísland á E3

12.06.2018 - 15:42
Tölvuleikja og tækni ráðstefnan E3 stendur nú sem hæst í Los Angeles en þar eiga Íslendingar einmitt sinn fulltrúa. Geir Finnsson, tölvuleikjasérfræðingur Núllsins, fór yfir það helsta sem að komið hefur fram

Fótbolti og Heimsmeistaramótið er eins og annars staðar í heiminum búið að vera stór hluti af ráðstefnunni en þar var meðal annars kynntur nýr FIFA leikur, FIFA 19, sem og uppfærsla á FIFA 18 sem að gerir manni kleift að spila um heimsmeistararbikarinn.

Sigurlína Ingvarsdóttir er verkfræðingur og tölvuleikjahönnuður sem að unnið hefur hjá EA, framleiðanda FIFA leikjanna um nokkurt skeið. Hún var meðal annars einn af aðalhöfundum Star Wars Battlefront leiksins sem að sló í gegn fyrir nokkrum árum.

Hún lét sig ekki vanta á ráðstefnunni þar sem að hún kynnti meðal annars nýja FIFA leikinn og nýju uppfærsluna. Í henni má meðal annars finna íslenska landsliðið og möguleika á að gera víkingaklappið. Sigurlína er stoltur Íslendingur og endaði kynninguna á því að öskra Áfram Ísland!

Geir stiklar á stóru en fyrir utan FIFA þá voru skemmtilegar fréttir frá hönnuðum Skyrim leiksins sem að sló gjörsamlega í gegn fyrir nokkrum árum og kom út á hverja einustu leikjatölvu sem að til er.

Nú er nýr leikur væntanlegur og ekki nóg með það heldur getur þú líka spilað hann á Alexu, hátalarnum frá Amazon. Geir segir framleiðendurnar í raun vera að gera grín að sjálfum sér en þetta sé samt sem áður raunverulegt og hægt er að spila leikinn í gegnum hátalarann.

Mynd með færslu
 Mynd: Amazon

E3 hátíðinni lýkur í lok þessarar viku en risar á borð við Sony og Nintendo eiga enn eftir að kynna sínar nýjungar og aldrei að vita nema að þar leynist stórfréttir.

Geir er fastur gestur í Núllinu á þriðjudögum þar sem að hann ræðir um allt sem að tengist tölvuleikjum og tækni. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.