Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Afpanta ferðir til Íslands í stórum stíl

17.03.2017 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um fimmtán hundruð afbókanir hafa borist norsku ferðaheildsölufyrirtæki vegna fyrirhugaðra ferða til Íslands í sumar. Framkvæmdastjórinn segir afbókanirnar hrúgast inn sem aldrei fyrr, fyrst og síðast vegna styrkingar krónunnar.

Styrking krónunnar undanfarin misseri hefur haft mikil áhrif á útflutningsgreinarnar, og þar er ferðaþjónustan ekki undanskilin. Ferðaþjónustufyrirtækin hafa mörg hver selt eða bókað ferðir fram í tímann og því kemur gengisþróunin sérlega illa við þau, en á síðustu tólf mánuðum hefur krónan styrkst um hátt í sautján prósent gagnvart helstu gjaldmiðlum. 
Norskur ferðaheildsali, sem selur pakkaferðir til Íslands til ferðaskrifstofa, segir að nú hrúgist inn afbókanir sem aldrei fyrr vegna fyrirhugaðra ferða til landsins í sumar. Framkvæmdastjórinn segir hækkandi verðlag samhlið styrkingu krónunnar fyrst og síðast um að kenna.

Uggandi yfir þróuninni

„Staðan frá agentunum er bara, við höfum ekki selt neitt, vinsamlegast afbókaðu brottfarirnar. Þannig að við erum núna að afbóka gríðarlega mikið fyrir sumarið,“ segir Rannveig Snorradóttir, framkvæmdastjóri Obeo Travel í Osló.

Fyrirtækið skiptir við ferðaskrifstofur í Taívan, Malasíu, Írlandi og Namibíu. Nú þegar hafa ferðaskrifstofur þar afbókað hátt í fimmtíu hópferðir sem fara átti til Íslands í sumar, fyrir um fimmtán hundruð manns, en uppselt var í nær allar sambærilegar ferðir síðasta sumar. Rannveig óttast að það muni ganga afar illa að selja ferðir til Íslands haldi áfram sem horfir.

„Við sem betur fer erum ekki bara að selja Ísland sem áfangastað, því ef það væri staðan þá væri ég farin að hafa mjög alvarlegar áhyggjur af mínu fyrirtæki. En þetta gæti valdið því að við þurfum að setja meiri fókus á aðra áfangastaði af því að búa til eina ferð fyrir okkur á Íslandi kostar gríðarlega vinnu, Við erum að búa til prógram, við erum að semja við rosalega marga samstarfsaðila bara til þess að búa til einn pakka og gera eina bókun. Hversu lengi eigum við að eyða okkar starfskrafti í það þegar við vitum að við afbókum þetta allt fyrir rest hvort eð er.“

Hún segir viðskiptavini sína á Íslandi, það er ferðaþjónustufyrirtækin, sömuleiðis uggandi yfir þróuninni, en hún hefur áhyggjur af langtímaáhrifum gengisstyrkingarinnar á Ísland sem áfangarstað ferðamanna.

„Þá mun túrisminn til Íslands fækka alveg gríðarlega, og það er ekkert sjálfgefið að við náum að byggja hann upp aftur,“ segir Rannveig.