Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Afnám hafta gæti hafist í ár

09.02.2014 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Afnám gjaldeyrishafta gæti hafist í ár, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. „Það getur gerst á þessu ári, en það fer eftir því hvort hægt er að samstilla væntingar allra þeirra sem eiga í hlut." Hann sagði að þetta myndi þó ekki gerast í einu vetfangi.

Bjarni var gestur í þættinum Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini Baldurssyni.

Gerist ekki í einu vetfangi
„Ég vil bara skjóta því að varðandi höftin, þau munu ekki fara í einu vetfangi, þannig að einn daginn eru þau og næsta dag ekki," sagði Bjarni. „Þau munu fara í skrefum þannig að þetta verður tímabil þar sem þau smám saman hverfa. Hvað tekur við? Við þurfum að tryggja að við séum með stöðugleika, að við séum ekki að reka ríkissjóð með miklum halla, það sé ekki undirliggjandi gríðarlega mikill verðbólguþrýstur, að það sé þokkaleg ró á vinnumarkaði, að við séum að gera það sem þarf til að draga fram fjárfestingar og skapa ný störf, því það þarf að fylgja í kjölfarið trú á framtíðina. Ella munu Íslendingar, fyrirtæki, aðrir vilja snúa krónunum sínum í erlendan gjaldeyri, með neikvæðum afleiðingum fyrir gengið og geyma peningana sína í öðrum myntum. Við viljum opna fyrir sem allra mest frelsi og erum háð því eins og allar aðrar þjóðir að menn hafi trú á því sem er að gerast. Það er liður í því sem við erum að vinna að núna."

Ekki hægt að flytja inn stöðugleika
Gísli Marteinn spurði Bjarna hvað hefði breyst síðan hann og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skrifuðu grein í ársbyrjun 2009 um að til lengri tíma litið væru þeir efins um að hægt væri að efla stöðugleika með krónunni.

Bjarni sagði að greinin hefði verið skrifað út frá því sem þeir hefðu orðið vitni að árin á undan, þegar mikill viðskiptahalli var við útlönd. „Við vorum sem sagt, í raun og veru að reka landið á yfirdrætti," sagði Bjarni og kvað síðustu ár hafa farið í að greiða það til baka. „Það er mjög sársaukafull aðgerð." Hann sagði reynslu Evruþjóða af fjármálakreppu síðustu ára einnig hafa haft áhrif á skoðanir sínar. „Það sem við sjáum gerast þar er í raun og veru katastrófa fyrir einstök ríki. Ég hef færst á þá skoðun að við Íslendingar verðum einfaldlega að sýna þann aga sem fylgir því að reka eigin mynt," sagði Bjarni. Það væri agi sem Íslendingar yrðu að tileinka sér sjálfir, hann væri ekki hægt að flytja inn með annarri mynt.

[email protected]