Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Afmælissýning á Alþingi í dag

20.06.2015 - 10:55
Mynd: RÚV / RÚV
Sýning í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna verður opin almenningi í Alþingishúsinu í dag. Sýningin er tileinkuð konum á Alþingi og kosningarrétti kvenna. Þarna gefst fólki meðal annars tækifæri til að sjá undirskriftalista frá 1913 þar sem krafist er þess að konur fái að kjósa.

Tæplega 6.000 konur skoruðu þar á Alþingi að breyta stjórnskipunarlögunum þannig að íslenskum konum yrði veittur kosningarréttur og kjörgengi til jafns við karlmenn.

Einnig má lesa tilvitnanir í ræður á Alþingi í aðdraganda lagasetningar um kosningarrétt kvenna. Fullyrðingarnar þykja eflaust spaugilegar í dag en þær voru settar fram í fullri alvöru árið 1913: „...það er ekki tilhlökkunarefni til dæmis fyrir gifta menn að hafa konu sína á alþingi, dóttur í bæjarstjórn og vinnukonuna kannske líka á öðrum hvorum staðnum.“

Í annari ræðu segir: „Karlmennirnir hafa tekið að sér störfin út á við en kvennþjóðin inn á við. Pólitísku störfin eru ekkert leikfang; þau eru hálfgert skítverk og við þess konar störfum eigum við að hlífa kvennþjóðinni.“

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV