Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aflýsa öllu flugi vegna kyrrsetningar Isavia

22.10.2017 - 14:46
Air Berlin A320 D-ABGP
 Mynd: Wikipedia - Wikipedia de
Air Berlin hefur ekki flogið hingað til lands frá því Isavia kyrrsetti vél félagsins á Keflavíkurflugvelli á fimmtudagskvöld. Félagið telur kyrrsetninguna ólöglega. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir enga ástæðu fyrir þýska flugfélagið að aflýsa flugi, það komi niður á farþegum en það sé alfarið flugfélagsins að finna annað flug fyrir þá.

Air Berlin flýgur hingað til lands að jafnaði nokkrum sinnum á dag. Félagið aflýsti flugi á föstudag og í gær og hefur aflýst tveimur ferðum frá Düsseldorf og Berlín í kvöld. Fjölmargir Íslendingar eru líklega meðal farþega og því margir sem lenda í erfiðleikum með að finna annað flug til landsins. Guðni segir að þýska félaginu hafi verið greint frá því að aðgerðir Isavia væru aðeins bundnar við þessa einu vél. „Þetta er vesen fyrir farþega sem eiga bókað flug. Það er erfitt fyrir farþegana að finna annað flug en það er flugfélagsins að hjálpa þeim. Það er engin bein ástæða til þess að gera þetta og ekkert sem við höfum gert til að aftra þessu flugi,“ segir Guðni. Hann segir að Isavia hafi heimildir í íslenskum lögum til að kyrrsetja vélina og það sé flugfélagsins að finna farþegum annað flug.

Isavia greip til þess að kyrrsetja vél Air Berlin vegna skuldar þýska félagsins. Ekki er gefið upp hversu há skuldin er en hún er lægri en sem nemur virði vélarinnar. Air Berlin er í greiðslustöðvun og skuldar Isavia notendagjöld. Í yfirlýsingu þýska félagsins segir að kyrrsetningin sé ólögmæt. Air Berlin fór í greiðslustöðvun fimmtánda ágúst og í tilkynningunni segir að skuldir sem stofnað var til fyrir þann tíma verði ekki greiddar að sinni. Félagið gerir ekki ráð fyrir að halda áfram starfsemi eftir 28. október en þýska flugfélagið Lufthansa og hið breska Easyjet hafa bæði lýst áhuga á að kaupa það.