Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aflið flytur í nýtt húsnæði

12.05.2016 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Já.is
Stór breyting verður á starfsemi Aflsins, samtaka á Akureyri gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, þegar skrifstofa samtakanna verður flytur í stærra húsnæði en þau hafa í dag. Á fundi bæjarráðs Akureyrar í dag var húsaleigusamningur vegna Aðalstrætis 14 samþykktur, en húsið er einnig þekkt undir nafninu Gudmanns Minde. Bæjarráð ákvað hins vegar að vísa samstarfssamningi aftur til velferðarráðs, sem hafði áður samþykkt hann fyrir sitt leyti og vísað til bæjarráðs.

 

Sóley Björk Stefánsdóttir er gjaldkeri Aflsins en jafnframt fulltrúi Vinstri-Grænna í bæjarráði. Hún vék af fundi bæjarráðs þegar málið var tekið til umræðu, en segir í samtali við fréttastofu að stórkostleg breyting verði á starfsemi Aflsins þegar samtökin fari í stærra húsnæði. Í núverandi húsnæði sé aðeins eitt herbergi þar sem ráðgjafar geti rætt við skjólstæðinga samtakanna. Í nýju húsnæði séu herbergin fjögur.

„Við erum með fimm ráðgjafa og þeirra vinna hefur krafist mjög mikillar skipulagningar, því það var bara eitt herbergi. Nú þurfa þeir ekki alltaf að vera hlaupa inn og út og skipulagið verður auðveldara. Þá verður einnig meiri samfella í faglegri þróun og fleiru,“ segir Sóley Björk.

Aflið fékk í fyrsta sinn fjárveitingu frá ríkinu samkvæmt fjárlögum á þessu ári, 10 milljónir króna. Það er mun meiri peningur en samtökin hafa haft úr að moða síðustu ár.

„Þetta er stórkostleg breyting sem hefur orðið á Aflinu á þessu ári. Fyrst fengum við þetta fjárframlag og síðan förum við í stærra húsnæði, sem mun gjörbreyta okkar starfi og möguleikunum sem við höfum. Við vorum að ráða inn starfsmann í 50% stöðu og svo höfum við fimm ráðgjafa sem vinna í verktakavinnu, fá greitt fyrir þá tíma sem þeir vinna,“ segir Sóley Björk. Stefnt er að því að flytja starfsemi samtakanna í Aðalstræti í júní.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV