Aflandsfélagahópur í tímahraki

13.01.2017 - 16:24
Mynd: Kastljós / RÚV
Í skýrslu vinnuhóps um aflandsvæðingu kemur fram að hópnum var ætlaður mjög naumur tími til verksins en hins vegar ekki skýrt af hverju tíminn var svo takmarkaður. Eitt af því sem bankahrunið og síðan Panamaskjölin afhjúpuðu var að íslenska aflandsvæðingin var hlutfallslega mun umfangsmeiri en gerðist í nágrannalöndunum. Skýrsla vinnuhóps á vegum fjármálaráðuneytisins um aflandseignir svarar ýmsum spurningum en vekur líka aðrar.

Panamalekinn dró alþjóðaathygli að íslensku aflandsvæðingunni

Panamalekinn dró athygli umheimsins að íslenskum aflandsumsvifum sem bankahrunið hafði þegar opinberað Íslendingum. Í kjölfar lekans ákvað Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra að skipa starfshóp um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera vegna þessa. 
Það gengur eins og rauður þráður í gegnum skýrsluna að starfshópurinn hafði ekki nægan tíma til verksins og skýrslan því full af ábendingum um hvað væri hægt að kanna frekar. 

Skýrsluskrif á naumum tíma

Það kemur hins vegar hvergi fram, hvorki í fréttatilkynningu um skipan hópsins né í skýrslunni sjálfri, hvaða tíma hópurinn fékk til verksins og heldur engin skýring á af hverju tíminn var greinilega svo naumt skammtaður. Spegillinn hafði ekki fengið svar við fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins um þetta þegar vinnslu þessa pistils lauk.
Eins og embættismönnum og ráðherra ætti að vera kunnugt tekur það ekki aðeins nokkrar vikur að safna saman efni um aflandsfélög. Á vegum Ríkisskattstjóra og annarra hafa öðru hverju verið unnar skýrslur um til dæmis undanskot frá skatti, aflandsfélög eru aðeins einn liður í því dæmi. 

Tímafrek vinna eins og dæmin sýna

Þær skýrslur hafa samkvæmt heimildum Spegilsins verið um ár til þrjú ár í vinnslu. Ein ástæðan er að eins og með þennan starfshóp þá eru þeir sem eru fengnir til starfans iðulega í öðrum störfum. Þar við bætist tímafrek gagnaöflun. 
Út frá þessu er erfitt að skilja af hverju starfshópurinn virðist hafa fengið jafn nauman tíma og raun ber vitni. Og í ljósi þess að það liðu rúmir þrír mánuðir frá því skýrslunni var skilað þar til hún var birt er bagalegt að starfshópurinn skildi þá ekki fá eitthvað af þeim tíma til að kanna allt það sem bent er á í skýrslunni að kanna mætti betur.

Viða reynt að giska á umfang aflandsvæðingar

Eins og kemur fram í skýrslunni þá er víða um heim verið að reyna að áætla aflandseignir. Franski hagfræðingurinn Gabriel Zucman hefur lagt sig eftir þessu undanfarin ár, hefur reynt að áætla það sem hann kallar falda auðlegð þjóðanna eins og Spegillinn hefur áður sagt frá. Hagfræðingar eins og James Henry, sem var einmitt ráðgjafi íslenska starfshópsins, og aðrir sem líkt og hann starfa á vegum samtakanna Tax Justice Network, hafa hins vegar gagnrýnt Zucman harðlega fyrir alltof lágt mat.
Í skýrslunni er þessi munur rakinn og sleginn varnagli við öllum tölum. Það eru því í raun ekki aðeins tölur um mögulegt tekjutap ríkisins af aflandsumsvifum sem er helsti akkurinn í skýrslunni heldur yfirsýnin yfir hvernig þessi vandi lítur út, hvers eðlis hann er og hvað er til ráða.

Áhugaleysi fyrri ára á aflandsumsvifum

Eitt af því sem segir sína sögu um langvarandi skilningsleysi eða áhugaleysi íslenskra yfirvalda um aflandsumsvif er tregðan við að taka upp löggjöf þar að lútandi, svokallaða CFC löggjöf, um ,,Controlled Foreign Companies.” Í desember 2004 skilaði starfshópur um umfang skattsvika á Íslandi skýrslu sem vakti gríðarlega athygli. Ein tillagan þá var að sem allra fyrst ætti að setja CFC ákvæði í íslensku skattalöggjöfina. Þáverandi stjórn tók þessu fálega, enginn áhugi einmitt á þeim tíma þegar bankarnir voru upp fyrir haus í þessari miklu aflandsvæðingu. Þessi löggjöf komst því ekki á fyrr en 2011, þremur árum eftir hrun. 
Í skýrslunni núna er bent á að sterk rök hnígi að því að fyrr og betur hefði verið tekið á íslenskum aflandsfélögum ef þessi löggjöf hefði verið sett strax í kjölfar skýrslunnar 2004. Þá höfðu hin Norðurlöndin þegar innleitt slíka löggjöf.

Heimildir úr keyptum gögnum

Eins og fram kom í fréttum veturinn 2014 til 2015 var nokkurt reiptog milli fjármálaráðherra og skattrannsóknarstjóra um kaup á aflandsgögnum. Það varð úr að gögnin voru keypt. Í skýrslunni má nú sjá dæmi um hvernig gögnin hafa meðal annars nýst. 
Alls hafa 1629 aflandsfélög fengið íslenska kennitölu enda vitað að margir eigendanna voru fyrst og fremst í viðskiptum á Íslandi. Í keyptu gögnunum eru 585 félög og aðeins um þriðjungur þeirra gefinn upp á Íslandi. Eins og bent er á í skýrslunni segir skráningin ein þó ekki alla söguna: það er hægt að skrá félag en láta svo vera að upplýsa skattinn um umsvif þess og eignir.

 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi