Aflandseignir: Úrbóta þörf í utanumhaldi

07.01.2017 - 03:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirvöld héldu illa utan um aflandsvæðinguna. Þetta er mat starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins á fjármagnsflutningum og eignaumsýslu á aflandssvæðum. Lausatök voru í öllu utanumhaldi aflandsvæðingarinnar af hálfu hins opinbera, allt frá skattalöggjöfinni og eftirfylgni með henni, til skráningar á fjármagnstilfærslum.

Í viðauka skýrslunnar þar sem farið er yfir skráningu og utanumhald á fjármagnstilfærslum segir að gagnavinna starfshópsins hafi leitt í ljós að skráningu upplýsinga hafi víða verið áfátt. Hafi það sérstaklega átt við á þensluárunum og fram yfir hrun. Sums staðar hafi verið tekið á þessum málum.

Stórar óútskýrðar gloppur

Starfshópurinn segir mikinn gagnavanda hafa komið í ljós í tengslum við gögn um viðskipta- og fjármagnsjöfnuð sem Seðlabankinn heldur um. Óútskýrðar gloppur séu þar og nemi þær yfir 20 prósentum af landsframleiðslu á sumum ársfjórðungum þegar verst lætur. Svo mikil frávik séu einsdæmi í heiminum segir í skýrslunni. Í dag stendur eftir um 400 milljarða króna óútskýrð skekkja sem táknar annað hvort óuppgefið peningaflæði úr landi eða vanhöld á gögnum.

Alls notaði starfshópurinn sjö flokka gagna við úrvinnslu skýrslunnar. Í fjórum þeirra rak hópurinn sig á veruleg vandkvæði í túlkun gagnanna. Lagt er til að gagnaskil og gagnasöfnun sem varða fjármagnsflutninga milli landa verði bætt hérlendis. Starfshópurinn telur kostnað við að vanda til verka við greiningu, utanumhald og eftirfylgni með söfnun gagna hafa verið vanmetin.

Þarf betra samstarf við Lúxemborg

Þá segir í skýrslunni að stuðla þurfi að meiri liðlegheitum í fyrirgreiðslu fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg við FME. Upplýsingar um umsvif eignastýringar tveggja fyrirtækja sem álitin eru arftakar íslensku bankanna í Lúxemborg hafi ekki fengist, þar sem ekki var um sakamál að ræða.
Skatteftirlit með aflandsfélögum er sagt lítið í framkvæmd. Saga CFC-löggjafarinnar sé gott dæmi um það því dregist hafi lengi að setja ákvæðið í lög og eftirfylgni með því ekki verið nægilegt. 

Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu er ekki til staðar. Skattyfirvöldum hefur ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar grunsamlegar fjármagnstilfærslur eru gerðar.

Heppilegur tími til úrbóta

Loks segir að það sem helst megi læra af aflandsvæðingunni sé í samræmi við niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Skaðinn sé skeður, „en til þess að koma í veg fyrir að hann endurtaki sig verður hið opinbera að vanda sérstaklega til lagaumgjarðar, skráningar og annars utanumhalds um fjármagnsfærslur á milli landa. Það á sérstaklega við um færslur á aflands- og lágskattasvæði." Tíminn sé heppilegur nú þegar fullt frjálsræði í fjármagnsflutningum verður innleitt að nýju.

Skýrslan hefur verið send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og er ætlað að nýtast í umræðu á Alþingi og víðar um það hvaða úrræðum verður beitt til að koma í veg fyrir undanskot frá sköttum, segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi