Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aflandseignir: Ríkið verði af milljörðum

06.01.2017 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd: Styrmir Kári - Fjármálaráðuneytið
Mögulegt tap íslenska ríkisins vegna vantalinna eigna Íslendinga á aflandssvæðum getur numið allt frá 2,8 milljörðum króna til 6,5 milljarða á ári miðað við gildandi tekjuskattslög.

Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði og fól að leggja tölulegt mat á umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera. Niðurstöðurnar voru kynntar síðdegis í dag.

Starfshópurinn áætlar að í lok ársins 2015 hafi uppsafnað umfang eigna og umsvifa Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 legið á bilinu 350 til 810 milljarða króna. Þá kemur fram í skýrslu starfshópsins að á árunum 2006 til 2014 hafi íslenska ríkið mögulega orðið af 56 milljörðum króna skattgreiðslum. 

Hópurinn tekur fram að ljóst sé að þær tölur sem kynntar eru í skýrslunni séu aðeins bráðabirgðaniðurstöður og mun ítarlegri greiningar sé þörf. 

Skýrslan hefur verið send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og er ætlað að nýtast í umræðu á Alþingi og víðar um það hvaða úrræðum verður beitt til að koma í veg fyrir undanskot frá sköttum, segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV