Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Afhjúpa minnisvarða um áhöfn flugvélar

03.05.2018 - 15:16
Mynd með færslu
Við afhjúpun minnisvarðans í dag. Á myndinni á sjá, meðal annarra, Richard Clark, hershöfðinga í flugher Bandaríkjanna. Mynd: Björn Malmquist - RÚV
75 ár eru í dag liðin síðan fjórtán manna áhöfn bandarísku sprengjuflugvélarinnar B-24D Liberator fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Af því tilefni var í dag afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindavíkurveg.

Minnisvarðinn skartar meðal annars stórri eftirlíkingu af flugvélinni. Ættingjar hinna látnu og bandaríska sendiráðið, ásamt áhugafólki um sögu og varðveislu stríðsminja kom saman við afhjúpun minnisvarðans í dag. Hann er reistur að frumkvæði bræðranna Þorsteins og Ólafs Marteinssona.

Flugvélin var á leið til Bandaríkjanna þegar slysið varð. Heimferðin átti að vera sigurför þar sem vélin var fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð að fljúga ósködduð 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Margar slíkar sprengjuflugvélar voru skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandaríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þær fengju að snúa heim.

Einn komst lífs af úr slysinu, George A. Eisel, stélskytta. Þetta var í annað sinn sem hann komst lífs af úr flugslysi. Meðal þeirra sem fórust í slysinu var Frank M. Andrews, hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu. Dwight D. Eisenhower tók við þegar Andrews féll og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Hann varð síðar forseti Bandaríkjanna, frá 1953 til 1961. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir