Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Afhentu ráðherra undirskriftarlista

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar frá Alþjóðadýravelferðarsjóðnum (IFAW) ásamt Hvalaskoðunarsamtökum Íslands og Samtökum ferðaþjónustunnar afhentu Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, nöfn meira en 50 þúsund einstaklinga, sem skrifað hafa undir kröfu þess efnis að borða ekki hvalkjöt og að allur Faxaflói verði gerður að griðasvæði fyrir hvali en ekki einungis hluti hans eins og nú er.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Alþjóðadýravelferðarsjóðinum er undirskriftasöfnunin í samræmi við ályktanir Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar, allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur og fleiri aðila um að Faxaflói allur verði gerður að griðarsvæði. Undir lok síðasta árs gerði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi sjávarútvegsráðherra breytingu á bannsvæði hvalveiða í flóanum og þá lenti stærstur hluti veiðisvæðisins hrefnuveiðimanna innan bannsvæðisins.

Í ágúst árið 2016 var þáverandi sjávarútvegsráðherra afhendar 100 þúsund undirskriftir sem safnast höfðu um þá kröfu að hvalveiðum við landið yrði hætt.

Við afhendinguna greindi sjávarútvegsráðherra frá því að hann hefði lagt minnisblað fyrir ríkisstjórnina um úttekt á hvalveiðum og áhrifum þeirra, bæði þjóðhagslegum og á aðrar atvinnugreinar. Að úttektinni stendur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og er niðurstöðu að vænta í september, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Sambærileg úttekt var gerð árið 2010 og var niðurstaða hennar að þjóðhagslega væri hagkvæmt að halda hvalveiðum áfram.

Ráðherra fól einnig Hafrannsóknarstofnun að meta fæðuþörf hvala og áhrifa á lífríki sjávar við Ísland.

Í samtali við fréttastofu sagði Þórir Hrafnsson upplýsingafulltrúa ráðuneytisins að ekki hefði verið tekin ákvörðun um það hvort að gefinn yrði út hvalveiðikvóti fyrir næsta ár. Úttektir Hagfræðistofnunar og Hafrannsóknastofnunar á hvalveiðum og áhrifum hvala á lífríki sjávar yrðu meðal þess sem tekið væri með í reikninginn þegar sú ákvörðun verður tekin.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV