Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Afgreiðsla Landsbankans færð, ekki lokuð

27.11.2015 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landsbankinn segir að ekki standi til að loka afgreiðslu bankans á Seyðisfirði, eins og Valgerður Gunnarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hélt fram á Alþingi í dag.

Valgerður sagði á þingi fyrr í dag að tvær konur sem hefðu fyrir stuttu fengið að vita að þær væru að missa vinnuna ætti eftir ca. eitt og hálft ár í að komast á eftirlaun. Þetta sé grafalvarlegt má og skoraði hún á Landsbankann að endurskoða þessa afstöðu sína.

Vegna þessara ummæla vill Landsbankinn koma á framfæri að ekki væri verið að loka afgreiðslu bankans á Seyðisfirði heldur færa hana á nýjan stað. Breytingarnar taki gildi um áramót og gera megi ráð fyrir að þá fækki starfsmönnum bankans úr þremur í einn. Stöðugildi voru áður rúmlega tvö en eftir breytingarnar verður einn starfsmaður í hálfu starfi. Við breytingarnar ljúki samstarfi Landsbankans og Íslandspóst en stærstur hluti verkefna afgreiðslunnar nú er vegna póstafgreiðslu. Komi til uppsagna hjá starfsfólki sem mun brátt öðlast rétt til töku eftirlauna mun bankinn gæta að því að þeir tapi ekki réttindum sínum til eftirlaunatöku.

Þá kemur fram í athugasemd Landsbankans að breytingarnar á Seyðisfirði séu liður í hagræðingu hjá Landsbankanum. Bankinn reki alls 39 afgreiðslur og útibú um allt land og um 60% af starfsfólki útibúanna er utan höfuðborgarsvæðisins. Til standi að afgreiðsla Landsbankans á Seyðisfirði fái inni í húsnæði sýslumannsins á Austurlandi á Seyðisfirði. Samningaviðræður hafi gengið vel en ekki hafi verið gengið endanlega frá samningum.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV