Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áfengissala gæti tekið miklum breytingum

15.03.2020 - 19:30
Mynd: Ragnar V / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar V - RÚV
Umgjörð áfengissölu á Íslandi kann að taka miklum stakkaskiptum á næstu misserum ef hugmyndir dómsmálaráðherra ganga eftir. Ráðherra hefur þegar kynnt drög að frumvarpi sem heimilar innlendum vefverslunum að selja áfengi beint til neytenda og boðar frekari breytingar.

 

Aðeins ÁTVR hefur heimild til að selja áfengi í smásölu hér á landi samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi og hefur það tekið litlum breytingum á undanförnum áratugum. Ítrekað hafa þó verið lögð fram þingmannafrumvörp á Alþingi til að afnema þessa einokun. Þau hafa nær alltaf mætt mikilli gagnrýni og ekki hlotið hljómgrunn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur nú lýst því yfir að hún vilji rýmka áfengislöggjöfina og hefur boðað þrjár breytingar. Í fyrsta lagi vill hún endurskoða bann við áfengisauglýsingum í fjölmiðlum, í öðru lagi veita brugghúsum heimild til að selja sínar vörur beint til viðskiptavina og þá vill ráðherra opna fyrir rekstur vefverslana með áfengi hér á landi.

Allar þessar hugmyndir eru mjög umdeildar en sú sem er komin hvað lengst er vefverslun með áfengi og hafa frumvarpsdrög verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Íslendingar geta nú þegar keypt sér áfengi frá erlendum vefverslunum. Til dæmis er hægt að að kaupa áfengi á Amazon og Ebay og eru vörurnar í sumum tilvikum sendar samdægurs heim að dyrum kaupandans. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að íslensk fyrirtæki fái einnig heimild til að reka slíkar verslanir.

Segir núverandi lög mismuna fyrirtækjum

Halldór Laxness Halldórsson rekur fyrirtækið Berjamó sem sérhæfir sig í innflutningi á náttúruvíni. Hann segir að núverandi lög mismuni fyrirtækjum eftir staðsetningu.

„Ég panta mér oft áfengi á netinu og ég hef fengið áfengið heim á innan við sólarhring frá Bretlandi. Og það er skrítið að neyða fólk til þess að senda pening úr landi til dæmis og af hverju megum við ekki gera þetta svona eins og aðrir?“, segir Halldór.

Yfir tuttugu umsagnir bárust um frumvarpið, þar á meðal frá Félagi lýðheilsufræðinga sem hvetur til þess að því verði hafnað.

„Við erum á móti auknu aðgengi að áfengi almennt. Og það er alveg sama í hvaða formi. Við höfum sent inn álit við öllum þeim frumvörpum sem hafa komið fram um aukið aðgengi að áfengi. Og það eru ástæður fyrir því vegna þess að það er vísindalega rannsakað að áhrifin á samfélagið í heild og sérstaklega viðkvæma hópa eru gríðarleg,“ segir Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir hjá Félagi lýðheilsufræðinga.

Opnar á miklar breytingar

Félag atvinnurekenda segir í sinni umsögn að verði frumvarpið samþykkt óbreytt muni það fela í sér miklar breytingar. [GRAFÍK] Það blasi við að bæði innlendir framleiðendur og innflytjendur áfengis muni stórauka sölu í gegnum netverslanir, gangi áformin eftir. Ekki verði séð að ÁTVR eigi sér rekstrargrundvöll með þessum breytingum.

Í frumvarpinu er í raun ekkert sem kemur í veg fyrir að hefðbundnar verslanir geti byrjað að selja áfengi. Varan má bara ekki vera sýnileg en með því að nota farsímann má panta og greiða fyrir áfengið í gegnum netið og fá það svo afhent á sama stað með því að framvísa skilríkjum.

Vilja fá leyfi til að selja beint til viðskiptavina

Brugghúsið Reykjavík Brewing Company er eitt af tuttugu tveimur sem mynda Samtök íslenskra handverksbrugghúsa og þar er Sigurður Pétur Snorrason formaður.

„Við erum fylgjandi vefverslun einfaldlega vegna þess að það hjálpar okkur að koma vörunni beint til neytenda. Við teljum að reglugerðin eins og hún er sett fram er fullnægjandi varðandi aðgengi fólks undir aldri eða þá að þetta auki ekki sýnileika á áfengi því að þú mátt ekki vera með sýningarherbergi eða slíkt. Þú bara verslar á vefnum og ferð svo og nærð í vöruna í einhverri afgreiðslu. Það er nú þegar vefverslun með áfengi á Íslandi og hún er rekin af ÁTVR,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að eitt helsta baráttumál handverksbrugghúsa sé hins vegar að fá heimild til að selja vörur í lokuðum umbúðum beint til viðskiptavina. Í dag þurfa viðskiptavinir að drekka vöruna á staðnum.

Grefur undan forvarnarstarfi

Lýðheilsufræðingar segja hins vegar að með þessum breytingum sem ráðherra boðar sé verið að grafa undan því forvarnarstarfi sem hafi verið unnið hér á landi og vakið athygli víða um heim.

„Við erum að fá ár eftir ár hópa erlendis frá. Hér er bankað upp á hjá öllum stofnunum til að fá kennslu í því hvað við erum að gera. Í sumar verður norræna lýðheilsuráðstefnan og þar hefur Evrópusambandið ákveðið að styrkja heilan dag þar sem verður fjallað um það hvernig Íslendingar eru að gera þetta og það lítur nú ekki vel út þegar Íslendingar eru byrjaðir að vinna gegn sinni eigin góðu stefnu,“ segir Sigríður Kristín. 

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV