Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Áfengisneysla gæti aukist um 40 prósent

06.02.2017 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Áfengisneysla gæti aukist um meira en fjörutíu prósent á Íslandi, ef farið verður að selja áfengi í matvöruverslunum. Þetta kemur fram í samantekt Landlæknisembættisins um erlendar rannsóknir á aðgengi og neyslu áfengis.

 

Þingmenn fjögurra flokka á Alþingi hafa lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að einkaleyfi Áfengis-og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis og bann við áfengisauglýsingum verði aflagt. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram í þessari mynd, en flutningsmennirnir eru bjartsýnir á að það verði samþykkt að þessu sinni.

Tvær af þremur bestu áfengisvarnarleiðunum afnumdar

Landlæknisembættið varar hins vegar við því. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun og Evrópusambandið hafi bæði gefið frá sér aðgerðaráætlanir, þar sem mælt sé með þremur aðferðum til að hindra óhóflega neyslu áfengis.

„Þessi þrjú helstu atriði eru þá bann við markaðssetningu og auglýsingum, áfengisgjaldið og takmarkað aðgengi. Frumvarpið í raun afnemur tvær af þessum þremur bestu leiðum. Svo það setur okkur í dálítið erfiða stöðu, hvað við getum þá gert,“ segir Rafn Magnús Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis.

Rannsóknir samhljóða um aukna neyslu

Landlæknisembættið tók fyrir rúmum tveimur árum saman yfirlit yfir erlendar lýðheilsurannsóknir á sölu og neyslu áfengis. Þar kemur meðal annars fram að samantekt á sautján rannsóknum gefi til kynna að áfengissala á mann gæti aukist um 44 prósent þegar áfengissala er leyfð í almennum verslunum.

„Heildarneyslan mun aukast væntanlega hjá öllum,“ segir Rafn. „Ungt fólk hefur aukið aðgengi og þá erum við kannski farin að draga úr þessum mikla árangri sem hefur orðið. Jaðarsettir hópar, fólk sem er viðkvæmt fyrir áfengi á þá auðveldara með að verða sér út um áfengi og erfiðara með að standast freistingarnar. En hinn almenni neytandi sem er stærsti hópurinn, hann mun líka auka áfengisneysluna. Og þá erum við kannski farin að sjá fram á eftir ekki svo mörg ár aukna tíðni í langvinnum sjúkdómum. Þannig að þetta hefur skaðleg áhrif á heilsufar þjóðarinnar í heild sinni.“

Samfélagskostnaður yfir 30 milljörðum á ári

Rafn segir að rannsóknirnar sýni að kostnaður þjóðarinnar yrði ekki eingöngu heilsufarslegur, heldur líka einfaldlega efnahagslegur. Hann gæti numið yfir þrjátíu milljörðum króna á ári.

„Við höfum tölur úr heilsuhagfræðiritgerð frá 2010 þar sem þjóðfélagsleg byrði vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu er reiknuð á bilinu 50-80 milljarðar, svo við getum áætlað að lægri endinn verði alla vega yfir 85 milljörðum. Það er töluverður kostnaður fyrir þjóðina.“