Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Áfengisfrumvarpið nýtur lítils stuðnings

21.03.2017 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirgnæfandi meirihluti umsagna um frumvarp, sem felur í sér afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis, lýsir andstöðu við frumvarpið. Lausleg könnun fréttastofu meðal alþingismanna bendir til hins sama. Frumvarpið er til umfjöllunar í allsherjarnefnd Alþingis.

Níu þingmenn úr fjórum flokkum flytja frumvarpið og er Teitur Björn Einarsson fyrsti flutningsmaður. Fyrstu umræðu er lokið og er frumvarpið nú til umfjöllunar í allsherjarnefnd þar sem byrjað verður að taka á móti gestum á fimmtudag.

Umsagnarfrestur er liðinn. Sendar voru út tæplega 270 umsagnarbeiðnir og hafa 73 verið lagðar fram og er skemmst frá því að segja að örfáar þeirra mæla með samþykkt frumvarpsins; aðrar eru á móti.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svipað frumvarp er lagt fram og hefur það alltaf valdið miklum deilum þvert á flokka og samfélagshópa. Þannig má benda á að Bruggsmiðjan Kaldi er alfarið á móti frumvarpinu og Stefán Pálsson sagnfræðingur og áhugamaður um bjór er það líka, sér í lagi því að það gæti leitt til þess að aðgengi að góðum bjór myndi minnka. 

Fréttastofa RÚV gerði lauslega könnun meðal þingmanna á stuðningi við frumvarpið en þess má geta að margir þingmenn svara ekki slíkum könnunum, gefa einungis upp afstöðu sína við atkvæðagreiðslu í þingsal. Þriðjungur svaraði fyrirspurn fréttastofu, þrír gáfu ekki upp afstöðu sína, fjórir styðja frumvarpið og fjórtán eru á móti.