Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áfengisfrumvarp lagt fram í fimmta sinn

20.09.2018 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, og sex aðrir þingmenn Viðreisnar, Pírata og Sjálfstæðisflokks hafa á ný lagt fram frumvarp um smásölu áfengis. Sambærileg frumvörp hafa fjórum sinnum áður verið lögð fram.

Meginmarkmið frumvarpsins er að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og að einkaaðilum verði heimiluð slík sala að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um að heimilt verði að auglýsa áfengi með takmörkunum, meðal annars að hvers kyns áfengisauglýsingu skuli fylgja viðvörunarorð um skaðsemi áfengis og að aldrei megi beina áfengisauglýsingum að börnum og ungmennum.