Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Áfengisfrumvarp - Allir sýna skilríki

10.09.2015 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ásamt 15 þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Bjartrar framtíðar, hefur lagt fram að nýju frumvarp um að sala á áfengi verði gefin frjáls. Verði frumvarpið samþykkt þurfa allir að sýna skilríki þegar þeir kaupa sér vín.

Í greinargerð með frumvarpinu nú eru nokkrar áherslubreytingar. Meðal annars er gerð er sú krafa að allir - ekki bara þeir sem eru unglegir - sýni skilríki þegar þeir kaupi áfengi. Þá er lagt til að kerfið verði óbreytt í eitt ár samhliða þessum breytingum - ÁTVR geti því áfram rekið útsöluverslanir sínar í tólf mánuði eftir að lögin taka gildi. Sem yrði 1. september 2016.

Vilhjálmur segist í samtali við fréttastofu vera nokkuð viss um að frumvarpið verði samþykkt á þessu þingi. „Það er meirihluti fyrir þessu á þingi þannig að ég skil ekki af hverju þetta ætti ekki að fara í gegn.“

Vilhjálmur hefur að minnsta kosti stuðning formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar sem sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra:. „ Má ég nefna það hér hvort við treystum fólkinu í landinu til að sækja áfengi í venjulegar verslanir eða ekki? Í mínum huga er það augljóst mál. Það eru röng skilaboð frá þinginu að treysta ekki fólki til þess að kaupa áfengi í venjulegum verslunum, að það þurfi opinbera starfsmenn til að afhenda slíka vöru yfir búðarborðið. Það eru röng skilaboð.“

Vilhjálmur bendir enn fremur á að frumvarpið nú hafi þremur fleiri flutningsmenn en á síðasta þingi - Hanna Birna Kristjánsdóttir, Brynjar Níelsson og Haraldur Benediktsson hafa nú bæst í hópinn. 

Vilhjálmur segir Framsóknarflokkinn vera tvístígandi í afstöðu sinni til frumvarpsins og það þykir honum skjóta skökku við - flokksmenn hafi stutt frumvarp Willums Þór Þórssonar um spilahallir.  Þá segir hann að Samfylkingin hafi fá svör getað gefið um hvort hún styðji frumvarpið - VG sé alfarið á móti því.

Vilhjálmur segist jafn framt hafa lagt áherslu á það í greinargerð með frumvarpinu að ekki væri eingöngu verið að leyfa áfengissölu í matvöruverslunum heldur líka gjafavörubúðunum og slíkum sérvöruverslunum. Og hann ítrekar: „Ég vil hafa þetta faglegt en ekki sjoppulegt - áfengi er ekkert grín.“ 

 

 

Vilhjálmur lagði frumvarpið einnig fram á síðasta þingi og þá urðu um það snörp orðaskipti - bæði utan þings og innan.  Fjölmargar umsagnir bárust um frumvarpið, meðal annars frá verslunarkeðjunni Costco, skoskum vískíframleiðendum og Læknafélagi Íslands.

Á þingi urðu einnig fjörugar umræður um málið - Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, spurði meðal annars Vilhjálm hvort hann sæi engan eðlismun á áfengi og pylsum eða kóki „eða hverju sem það nú væri.“

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist hafa áhyggjur af því að starfsfólk verslana væri oft börn.