Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Áfengisbannið var óvænt niðurstaða

Mynd: . / .

Áfengisbannið var óvænt niðurstaða

25.07.2018 - 14:42

Höfundar

Stefán Pálsson, sagnfræðingur, segir að margt bendi til þess að alþingismenn hafi aldrei gert ráð fyrir því að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908 yrðu áfengisbanninu í vil.

„Það var náttúrulega fyrst og fremst uppgangur Góðtemplarareglunnar sem réði þessu,“ segir Stefán. „Bindindishreyfingar eru mjög öflugar alls staðar á Vesturlöndum undir lok 19. aldar. Ísland er þar engin undantekning.“ Stefán segir bindindishreyfingarnar oft hafa verið tengdar verkalýðshreyfingunni og einkennst af framfarahyggju þessa tíma. „Það var útbreitt viðhorf að áfengi væri á útleið. Viðhorf til áfengis var ekki ósvipað því sem er í dag til sígarettureykinga.“

Templarareglan gríðarsterk

Enda voru menn með vísindin með sér í liði, rannsóknir sýndu fram á það að áfengi væri skaðlegt, en ekki hreinlega heilsustyrkjandi eins og margir höfðu talið fram að því, og víða um Evrópu spretta upp hreyfingar sem hvetja til hófdrykkju.

„Við fáum hins vegar Templararegluna. Hún er í grunninn bandarísk hreyfing sem blandar saman púrítanískum trúarhugmyndum við leynireglur eins og Frímúrara sem nutu mikilla vinsælda á þeim tíma og úr verður þessi hreyfing sem er þaulskipulögð og leggur áherslu á algjört bindindi.“

Mynd með færslu
 Mynd: C.H.J. Snider - Wikimedia Commons
Góðtemplarahreyfingin kom frá Bandaríkjunum.

Stefán segir að þessar hugmyndir hafi fallið vel í kramið hjá Íslendingum því á þessum tíma stóð sjálfstæðisbaráttan sem hæst og margir tengdu áfengið við Dani. „Það voru jú danskir einokunarkaupmenn sem höfðu verið að selja okkur áfengið.“ Íslensku templararnir verða því ógnarsterkir og það dregur hratt úr áfengisneyslu Íslendinga. Stefán segir að líklega hafi Íslendingar aldrei, fyrr né síðar, drukkið minna áfengi en á þessum tíma.

Minnir á Brexit

„En þeir vildu nú líka flýta fyrir þessu og beita sér á þingi,“ segir Stefán. „Það eru samþykkt lög sem banna framleiðslu á áfengi, kaupmönnum er bannað að gefa áfengi í verslunum sínum og það er reynt að setja reglur um lágmarksskammta af áfengi.“ Hið síðastnefnda var tilraun til að draga úr því að ungmenni og efnaminna fólk gæti keypt áfengi. „Metnaðarfyllsta hugmyndin í þessu efni var frumvarpið um það að lágmarksinnkaupastærð af bjór var 100 flöskur í einu.“

Stefán segir að ýmislegt í þessari sögu minni á aðdraganda bresku Brexit-atkvæðagreiðslunnar árið 2016, þar sem breska stjórnmálastéttin trúði því ekki að menn myndu greiða atkvæði gegn Evrópusambandinu.

„Árið 1905 er samþykkt á Alþingi þjóðaratkvæðagreiðsla um áfengismálin. Margt bendir til að þingmönnum hafi aldrei komið til hugar að þetta yrði samþykkt, heldur hafi þeir hugsað með sér að þetta væri leið til þess að losna við þetta kvabb, þarna gætu þeir varpað ábyrgðinni frá sér og þaggað niður í mjög háværum þrýstihópi,“ segir Stefán en bætir við að þingmenn hafi ekki áttað sig á að templararnir væru eina skipulagða hreyfingin þegar kom að kosningum. „Áfengisbann var samþykkt með miklum meirihluta, um 60% greiddra atkvæða, í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1908.“

Áfengisauglýsingar voru bannaðar á Íslandi með lögum frá árinu 1928 meðan áfengisbannið var enn í gildi. Áfengisbanninu var svo aflétt 7 árum seinna, en auglýsingabannið hefur haldist síðan.

Stefán Pálsson mun leiða kvöldgöngu frá Borgarbókasafninu fimmtudagskvöldið 26. júlí, kl 20, og hefst hún hjá Grófarsafni. Þar verður gengið á milli staða í miðbænum sem tengjast áfengisbanninu sem var afnumið að fullu árið 1935.
Viðtalið við Stefán, sem flutt var í Tengivagninum, má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.