Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Áfellisdómur yfir stjórnarháttum OR

10.10.2012 - 20:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Margrét Pétursdóttir, formaður úttektarnefndar um bága fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur, telur skýrslu nefndarinnar sem var kynnt í dag vera áfellisdóm yfir stjórnarháttum í fyrirtækinu.

Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar sé sú að það hafi verið slæmir stjórnarhættir sem megi kenna að einhverju leyti um þá fjárhagslegu stöðu sem Orkuveitan var komin í.

Margrét segir að Orkuveitan hafi hagnast vel á grunnstarfsemi en síðan hagnast vel á ótengdum rekstri. Hún telur að eigendur fyrirtækisins hafi orðið fyrir skaða en að einhverju leyti sé það af völdum eigendanna sjálfra. Engin ein ástæða hafi verið fyrir slæmri stöðu fyrirtækisins. Það sé hlutverk eigendanna að setja fyrirtækinu skýra stefnu og skýr markmið með starfseminni.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru að ástæður fjárhagserfiðleika auk óstjórnar séu miklar fjárfestingar, háar arðgreiðslur, gengistap og tregða við að hækka gjaldskrár. Þá bendir nefndin meðal annars á að forstjórinn hafi haft meiri völd en tíðkist í hlutafélögum eða hjá Landsvirkjun.