Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Áfellisdómur yfir íslenskum yfirvöldum

18.05.2017 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómur mannréttindadómstóls Evrópu yfir baugsmönnum er áfellisdómur yfir skattayfirvöldum og dómstólum, segir Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor. Íslenska kerfið sé þó ekki ónýtt og það þurfi ekki að umbylta því. Jón Ásgeir Jóhannesson segir að dómurinn hafi ekki komið á óvart og spyr hver ætli að axla ábyrgð á endurteknum mannréttindabrotum yfirvalda.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst samhljóða að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva Jónssyni með því að dæma þá tvisvar á grundvelli sömu sönnunargagna. Jón Ásgeir birti viðbrögð sín á nýrri vefsíðu í dag og segir að niðurstaðan hafi ekki komið á óvart. Þar spyr hann hver ætli að axla ábyrgð.

Jón Ásgeir og Tryggvi voru ásamt Kristínu Jóhannesdóttur dæmdir í skilorðsbundi fangelsi fyrir rúmum fjórum árum fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Ákærum er varða Gaum var vísað frá mannréttindadómstólnum. Tvímenningarnir töldu sig hafa þurft að þola refsingu á tveimur stöðum, hjá yfirskattanefnd, og dómstólum og mannréttindadómstóllinn féllst á það.

Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor segir að dómurinn þýði ekki að þessir tveir þættir málsmeðferðarinnar, hjá skattayfirvöldum og hjá dómstólum feli í sér sjálfkrafa brot en íslenskir dómstólar verði að skoða hann rækilega. „Þetta er náttúrulega áfellisdómur og þetta kallar á það að skattayfirvöld og dómstólar taki þennan dóm til skoðunar en vel að merkja þá þýðir þessi dómur ekki í prinsippinu að þetta tvöfalda kerfi, það er að segja annars vegar skattaleg meðferð sem endar með álagningu og hins vegar refsimál. Það þýðir það ekki að þetta geti ekki alveg staðist, hins vegar gengur þessi dómur út á það að framkvæmdin í þessu tiltekna máli var í molum,“ segir Davíð Þór. 

Íslenska ríkið geti áfrýjað dómnum en dómurinn megi vísa því frá. Bæði Tryggvi og Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, telja að dómurinn setji fjölmörg svipuð mál í uppnám. „Það er ekki rétt eins og kannski sumir hafa reynt að halda fram í dag að þetta þýði það að íslenska kerfið sé ónýtt og það þurfi að umbylta því algjörlega en það þarf augljóslega að taka til í þessum málum og laga framkvæmdina.“ 

Baugsmálið hófst 2002 þegar efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit í höfuðstöðvum Baugs. Nokkru síðar voru gefnar út ákærur vegna fjárdráttar og umboðssvika og fleira. Héraðsdómur dæmdi Jón Ásgeir Jóhannesson í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og Tryggva Jónsson í tólf mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt og fleiri brot. Jóni Ásgeiri var gert að greiða 62 milljónir króna í sekt en Tryggva 32 milljónir. Samkvæmt niðurstöðu mannréttindadómstólsins þurfa þeir ekki að greiða sektirnar, en hvorugur þeirra hafði gert það, að því er fram kemur í dómnum.