Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Afdráttarlaus yfirlýsing

01.01.2016 - 14:47
Francois Holland og Ólafur Ragnar Grímsson í Élysée höll í París
 Mynd: Forseti Íslands
Yfirlýsing Ólafs Ragnars Grímssonar forseta um að hann hyggist ekki gefa kost á sér til endurkjörs í forsetakosningum í sumar er afdráttarlausari en yfirlýsingin sem hann gaf í nýársávarpi sínum fyrir fjórum árum. Þá talaði hann um að geta orðið að liði ef val hans yrði aðeins háð eigin vilja og óbundið af embætti forsetaembættisins.

Segja má að Ólafur Ragnar hafi strax í upphafi ræðu sinnar gefið vísbendingu um hver sú ákvörðun yrði sem hann hefði tekið um framtíð sína á forsetastóli. „Við Dorrit óskum ykkur gleðilegs árs og farsældar á nýrri vegferð; tímamótin marka skil og framtíðin er líkt og jafnan okkur hulin, en samt ráða aðstæður og eigin vilji hvert leiðin liggur. Það gildir bæði um okkur sjálf og þjóðina."

Þessi orð hans enduróma að nokkru orð hans í nýársávarpinu fyrir fjórum árum um að eigin vilji ráði för. Þegar forsetinn tilkynnti fyrir tæpum fjórum árum að hann hefði ákveðið að verða við áskorunum um að gefa kost á sér til endurkjörs vísaði hann til ríks vilja sem hefði birst um að hann sæti áfram og þeirrar óvissu sem væri uppi.

Frjálst val óbundið af skorðum forsetaembættsins

Fyrir fjórum árum varð forseta tíðrætt um að hagur almennings og atvinnulífs færi batnandi en benti á að enn teldu margir tímana markaða verulegri óvissu á vettvangi þjóðmálanna, og vísaði til fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga og aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Hann tók einnig fram að fólk hefði höfðað til skyldurækni hans og beðið hann að gegna embættinu áfram.

Niðurstaðan kann að hljóma sem þversögn en er engu að síður sú að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis að ég geti fremur orðið að liði ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum. Þegar skyldur þjóðhöfðingjans hvíla ei lengur á mínum herðum fæ ég meira frelsi til að sinna hugsjónum og málefnum sem hafa lengi verið mér kær, get á annan veg tekið þátt í að efla framfarir og hagsæld, vísindi, rannsóknir og atvinnulíf.

Ólafur Ragnar sagði fyrir fjórum árum að ákvörðun sín fæli „ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs".

Glufa opin fyrir fjórum árum

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í viðtali við RÚV fyrir fjórum árum um nýársávarp forseta að Ólafur Ragnar hefði gert með býsna afgerandi hætti grein fyrir eigin niðurstöðu. „Ég lít á þetta þannig að hann hafi sagt við þjóðina: Ég hef ákveðið að hætta. En hins vegar kannski hélt hann opinni ofurlítilli glufu, það er að segja að hann sagði ekki að það kæmi ekki til greina undir neinum kringumstæðum að hann færi í framboð. Þannig að ef að þjóðin gefur það til kynna á komandi vikum og mánuðum, með mjög öflugum hætti, að hún vilji að hann fari inn í fimmta kjörtimabilið þá myndi ég nú ekki útiloka að hann myndi hugleiða það.“

„...ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs"

Í ræðu sinni í dag fór Ólafur Ragnar yfir það lið fyrir lið hvernig óvissa sem ríkt hefði í mikilvægum málaflokkum væri liðin hjá. Hann vísaði til þess að til stæði að gera minni breytingar á stjórnarskrá nú en rætt var um fyrir fjórum árum, að auki hefðu allir stjórnmálaflokkar heitið því að efna ekki aftur til viðræðna við Evrópusambandið um aðild nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir það hefðu margir höfðað til skyldu hans og sagt óvissu ríkja á ýmsum sviðum. Það traust sagðist hann meta mikils en bað landsmenn að íhuga vel þá kjörstöðu Íslands sem hann hefði gert að meginboðskap sínum í dag.

Í ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs. Nú er góður tími fyrir þjóðina að ganga með nýjum hætti til ákvörðunar um forseta; sess Íslands og innviðir þjóðlífsins eru traustari en um langan tíma.

Ólafur Ragnar sagðist reiðubúinn að sinna áfram verkum á þjóðarskútu Íslendinga þó annar héldi um forsetastýrið. Hann sagðist ekki vera að hverfa frá borði heldur verða „ætíð fús að leggjast með öðrum á árar". Hann lagði einnig áherslu á að vinna áfram að samvinnu á Norðurslóðum og treysta sess Íslands sem miðstöðvar þeirrar umræðu. Að auki kvaðst hann vonast til að fá allmörg ár til að vinna áfram með háskólunum, ungu fólki í vísindum, rannsóknum og fræðastarfi og styrkja þekkingartengslin milli Íslands og annarra landa.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV