Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Afbókanir út af WOW air eru sáralitlar“

25.04.2019 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Hóteleigendur á Suðurlandi segja lítið um afbókanir í kjölfar gjaldþrots WOW air og búast ekki við miklum samdrætti í ferðaþjónustu frá því síðasta sumar. 

Flestir eru sammála um að gjaldþrot WOW air er högg fyrir ferðaþjónustuna, en ekki eru allir sammála um hversu mikil áhrifin verða. Á Suðurlandi hefur verið mikil hóteluppbygging á síðustu árum. Hreiðar Hermannsson hótelstjóri á Stracta Hótel segist lítið finna fyrir afbókunum.

„Það er sáralítið, við höfum borið saman árið í fyrra og það eru svipaðar afbókanir og þá og svipað sem kemur á móti. Þannig að þetta er í balans ennþá sem getur vel haldist út árið, en við sjáum það ekki fyrr en kemur nær júlí og ágúst hvort það verði breyting. Ég var búinn að spá að þetta gæti orðið allt að 15% minnkun en það er margt sem bendir til þess bara á þessari einu viku að sú spá rætist ekki og að þetta verði miklu minni afbókanir heldur en ég hefði talið,“ segir Hreiðar. 

Gjaldþrot WOW air hefur engin áhrif á stækkunaráform Hótel Stracta, segir Hreiðar. Með nýjustu stækkun verða 160 herbergi á hótelinu en stefnan er sett á 400 herbergi á næstu árum. Óvissan lúti þó meðal annars að því hvernig gengur að fylla skarð WOW air og þar skipti miklu máli að nýtt flugfélag taki til starfa hér á landi. 

„Óvissan verður auðvitað alltaf meðan við höfum ekki gjaldmiðil sem við vitum hvað verður á morgun og hvað verður hinn daginn,“ segir Hreiðar.

Á Hellishólum í Fljótshlíð rekur Víðir Jóhannsson, hótel, gistiheimili og sumarhúsaleigu. Hann segir útlitið ágætt og það stefni í svipað sumar og í fyrra. 

„Ég er nokkuð bjartsýnn, auðvitað hafa komið nokkrar afbókanir en ég ætla ekki að tengja það við fall WOW air. Ég held að fall WOW air sé fyrst og fremst hörmung fyrir okkur öll og sérstaklega fólkið sem missti vinnuna, en afbókanir út af WOW air eru sáralitlar,“ segir Víðir. 

En hvernig eru fyrirtæki í ferðaþjónustu í stakk búin til að mæta mögulegum samdrætti? „Ef þú ert að byggja upp þjónustu og ert mjög skuldsettur þá held ég að þau fyrirtæki eigi eftir að fara illa, eða það verður mikil sameining á markaðnum. Ef menn eru skynsamir og byggja í takt við það sem þau þéna, þá held ég að menn þurfi ekkert að kvíða,“ segir Víðir.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV