Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áfall að fá ekki mokstur í Árneshrepp

29.03.2019 - 17:56
Vegurinn í Árneshrepp opnaður um miðjan mars 2018
Snjómokstur í Árneshreppi. Mynd úr safni. Mynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson - Aðsend mynd
Það kom flatt upp á íbúa Árneshrepps þegar vegurinn í hreppinn var ekki ruddur í dag eins og hefð er fyrir, hótelstjóri segir það hafa verið áfall. Deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir að Vegagerðin hafi heimild til að moka leiðina í hreppinn, en beri ekki skylda til.  

 

Hefð að moka í hreppinn eftir 20. mars

Svokölluð G-regla Vegagerðarinnar gildir um veginn sem liggur norður í Árneshrepp. Samkvæmt henni er heimilt að moka veginn tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er, annars ekki. Vortímabilið hefst þann 20. mars. Magnús Karl Pétursson, hótelstjóri á Hótel Djúpavík, segir að síðan fólk man eftir hafi verið mokað á föstudögum eftir 20. mars. „Það héldu allir að það væri loksins komin þjónusta á svæðið og þá fengjum við mokstur tvisvar í viku ef þörf er á þannig að það kom okkur á óvart að sjá að það væri ekkert verið að vinna í veginum.“

Heimild en ekki skylda

Sigurður Mar Óskarsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir að samkvæmt G-reglunni sé Vegagerðinni heimilt að ryðja tvisvar í viku eftir 20. mars en henni beri ekki skylda til þess. Í dag hafi svæðisstjórn og þjónustudeild þó ákveðið að skoða mokstur í næstu viku, það fari þó eftir veðri. Sveitarfélagið getur óskað eftir því að vegurinn sé ruddur en greiðir þá helming fyrir, og hefur gripið til þess ráðs nokkrum sinnum í vetur.

Fólk búist við að það yrði rutt

Magnús Karl segir það koma flatt upp á fólk í Árneshreppi að moksturinn ráðist af geðþóttaákvörðun. Fólk hafi reitt sig á að nú yrði rutt og gert ráðstafanir miðað við það, en vegurinn hefur ekki verið ruddur frá 23. mars. „Við treystum á þessa þjónustu og teljum okkur eiga rétt á henni loksins eftir þrjá mánuði án hennar. Þetta var áfall, ég get alveg viðurkennt það,“ segir Magnús Karl.