Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Af hverju treysta Íslendingar ekki Alþingi?

Mynd: RÚV / RÚV

Af hverju treysta Íslendingar ekki Alþingi?

10.04.2019 - 15:26

Höfundar

„Það er búið að kjósa án afláts frá 2008, þjóðin er sífellt að skipta um sokka en allt kemur fyrir ekki. Alltaf er sama táfýlan af Alþingi,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson í nýjum pistli. Hann veltir fyrir sér hvernig ráðamenn geti endurheimt traust þjóðarinnar og líkir Wintrismálinu við grískan harmleik.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Til er dásamleg saga af rómverska embættismanninum Publiusi Valeríusi, sem var annar af fyrstu konsúlunum þegar Rómverska lýðveldið var stofnað árið 509 fyrir Krist. Hús Tarkiníusar konungs á Valía-hæð, sem hafði verið steypt af stóli í byltingunni, var lagt í rúst og okkar maður Valeríus byrjaði að reisa sér nýtt hús í staðinn. Þetta leist Rómverjum ekki vel á enda þóttu þessir tilburðir Valeríusar ekki boða gott.

Elskhugi fólksins

Húsið var ógnvekjandi sjón uppi á hæðinni og þar gat Valeríus haft yfirsýn yfir daglegt líf á götunum. Í augum fólksins hafði hann konunglegt fas þegar hann kom gangandi niður af hæðinni og það var því ekki að skapi. En Valeríus var enginn vitleysingur. Þegar vinir hans sögðu honum að hann hefði reitt fólkið til reiði með byggingu hússins á Valía-hæð brást hann skjótt við og lét rífa það í skjóli nætur án nokkurrar eftirsjár eða biturðar. Nú átti hann ekki þak yfir höfuðið og þurfti að gista hjá vinum sínum um hríð. Hann „fékk að krassa“ eins og það er kallað í dag. Æðsti embættismaður ríkisins, konsúllinn sjálfur, eyðilagði sitt eigið hús og „couchsörfaði“ um ríkið. Almenningur var vitaskuld hrifinn af þessu stórmannlega uppátæki Valeríusar og lét að lokum reisa honum nýtt hús – minna og hógværara hús á öðrum stað – og gaf honum jafnframt heitið Poplícola, sem þýðir „elskhugi fólksins“. Með því að lægja sjálfan sig, jók hann völd sín. 

Boðskapur sögunnar er vitaskuld sá að ráðamenn í lýðveldum eða lýðræðisríkjum eiga ekki að búa eins og konungar. Þeir eiga ekki að búa uppi á hæðum og þeir eiga ekki að lifa í öðrum veruleika en fólkið sem þeir hafa völd yfir. Sagan af Poplicola er ekkert einsdæmi. Klassíski heimurinn er uppfullur af svona frásögnum. Þeseifur, stofnhetja Aþenumanna, var þekktur af því hversu vel hann kom fram við fátæklinga og flóttafólk. Numa Pompilius, annar konungur Rómarveldis, bannaði allan munað á sínu eigin heimili. Lýkúrgus, löggjafi Spartverja, skipti eigum ríkisins jafnt milli borgaranna og bauð manninum sem blindaði hann að búa með sér. Seinna svelti hann sig í hel til þess að sýna samlöndum sínum í verki að honum væri alvara með andstöðu sinni við óþarfa munað. Á þessum tíma voru leiðtogar metnir eftir því hversu dyggðugt fólk þeir voru. 

Mynd með færslu
 Mynd: Marie-Lan Nguyen - Wikimedia commons
Þeseifur, stofnhetja Aþenumanna, var þekktur fyrir hve vel hann kom fram við fátæka og flóttafólk.

Ónáttúruleg lífsháttastjórnun kallar á sterkari siðferðiskröfur

Hversu ríkar siðferðiskröfur er eðlilegt að gera til ráðamanna? Er réttlætanlegt að gera frekari kröfur til þeirra um dyggðugt líferni en annarra? Hversu ríkar kröfur um siðprýði hafa Íslendingar gert til ráðamanna sinna frá landnámi? Ég spyr vegna þess að þegar þessi orð eru skrifuð hefur í mörg ár verið mikill uppgangur á Íslandi en samt mælist traust þjóðarinnar til Alþingis 18%. Borgarstjórnin í Reykjavík mælist með 16%. Það er minna traust er borið er til bankakerfisins. Þetta er með algjörum ólíkindum. En hvað þýðir annars þessi spurning – að treysta Alþingi? Hvernig er þessi spurning orðuð í Gallup-könnunum? Af hverju er ekki líka spurt: Hvað þýðir spurningin um að treysta Alþingi fyrir þér? 

Það er búið að kjósa án afláts frá 2008, þjóðin er sífellt að skipta um sokka en allt kemur fyrir ekki. Alltaf er sama táfýlan af Alþingi. Hvað veldur þessu? Og þetta er náttúrulega ekki bara bundið við Ísland. Lýðræði á undir högg að sækja um allan vesturheim og vantraust í garð valdastétta er geysilega mikið.

Vald eins yfir öðrum er óeðlilegt ástand 

Ég get vitaskuld aðeins talað fyrir sjálfan mig en ég held að það sé eðlilegt að gera mjög ríkar siðferðiskröfur til fólks sem býður sig fram í valdastöður. Jafnvel svo ríkar að þar sé beinlínis gerð krafa um, ekki bara góðan ásetning, heldur dyggðir á borð við fórnfýsi. Ástæðan er sú að völd eins yfir öðrum er ekki eðlilegt ástand. Allar manneskjur eru fæddar frjálsar og jafnar og þess vegna er ekki náttúrulegt fyrirkomulag að ein manneskja hafi vald til þess að stýra lífsháttum annarrar. Sönnunarbyrðin verður því alltaf að hvíla á valdinu, og þegar hvers kyns vald getur ekki réttlætt sína eigin tilvist, þá ber að leysa það upp. Að líta svo skeptísku auga til yfirvalds er hins vegar ekki mjög skandinavísk hugsun – ég geri mér grein fyrir því – og á Íslandi fæ ég oft á tilfinninguna að stjórnmálamenn vilji helst ákveða fyrir mig hvort ég bursta efri eða neðri tanngarðinn fyrst. 

En þótt vald einnar manneskju yfir annarri sé óeðlilegt ástand, þá er þjóðskipulagið hins vegar þannig að tilteknu fólki er treyst til þess að setja öðrum reglur og stýra lífsháttum þess, svo ekki sé minnst á að eyða og útbýta sameiginlegum verðmætum og auðlindum sem almenningur á og skapar. Þetta opinbera vald er síðan öllum stundum varið með undirliggjandi hótun um ofbeldi í garð þeirra sem því lúta. Af þessum sökum tel ég eðlilegt að líta svo á að það sé grafalvarlegt mál að fara með völd yfir lífi og tilveru annars fólks. Þetta er ekki bara eins og hvert annað starf. Hafi einhver metnað fyrir því að ráða yfir lífi annarra, þá er með öðrum orðum sjálfsagt að gera ríkar siðferðiskröfur til viðkomandi, talsvert ríkari en til skósmiðs eða sundlaugarvarðar. 

Það er þess vegna sem ég tel að Rómverjar til forna hafi ekki fílað að sjá konsúlinn sinn byggja sér hús uppi á hæð sem gnæfði yfir þeim. Og hver veit, kannski var líka skæður húsnæðisvandi í Rómarveldi á fimmtu öld fyrir Krist. Það vill enginn láta manneskju sem býr í höll uppi á hæð ráðkast með sig. Og það er þess vegna sem mestu leiðtogar fornaldar lögðu svo mikla áherslu á persónulega fórnfýsi. Þeir skildu að annars væru þeir ekki trúverðugir í hlutverki sínu sem þjónar almennings. Og það er ekki að ástæðulausu að í íslensku er orðið embætti er náskylt orðinu ambátt.

Mynd með færslu
 Mynd: Joan de Joanes - Wikimedia commons
Í Markúsarguðspjalli segir Kristur: „Hver sem vill vera fremstur sé síðastur og þjónn allra.“

Wintrismálið sem grískur harmleikur

Stundum grunar mig að ímyndarvandi Alþingis – og eiginlega vestræns lýðræðis í heild sinni frá árinu 2008 – liggi einmitt þarna, í þessu gamla hugtaki, „þjónn almennings“, sem endurspeglast í dyggðum eins og persónulegri fórnfýsi og ósérhlífni. Í Markúsarguðspjalli segir Kristur: „Hver sem vill vera fremstur sé síðastur og þjónn allra.“ Það efast enginn um að hellingur af góðu fólki hefur verið kosinn á þing síðustu tíu árin, en það þarf bara miklu meira til. Hversu marga stjórnmálamenn hafa Íslendingar átt frá lýðveldisstofnun sem almenningur sjálfur myndi kalla „þjóna almennings“ í Gallup-könnun?

Vitaskuld skýrist þetta gegndarlausa vantraust í garð Alþingis að miklu leyti af þessum endalausu litlu spillingarmálum og hæpnu ákvörðunum sem maður les um í fjölmiðlum ár eftir ár, í bland við það hversu frjálslega er farið með peninga almennings og svo auðvitað stór atvik á borð við efnahagshrunið 2008, fíaskóið kringum galdrakallastofnunina Kjararáð og þá staðreynd að æðstu ráðamenn þjóðarinnar eigi falda fjársjóði og aflandsfélög, sem gæti allt eins átt uppruna sinn í grískri fornsögu – Wintrismálið er bókstaflega eins eitthvað upp úr grískum harmleik. En að mörgu leyti held ég að vandi Alþingis, og vandi lýðræðisins yfir höfuð, hafi kristallast einna best í Klaustursmálinu, þar sem „elskhugar fólksins“ á Íslandi voru í essinu sínu. 

Á æskuheimili mínu heyrðist stundum sagt við matarborðið að á Íslandi sé engin pólisía, heldur bara pólitík. Mér varð hugsað til þessarar setningar þegar ég heyrði tæp 10% þingmannna Íslendinga tortíma eigin orðspori á Klausturbarnum. Dró einhver þá ályktun, eftir að hafa hlýtt á upptökurnar, að þarna væri á ferð fólk sem tæki völd sín yfir lífi og tilveru annars fólks alvarlega? Að þarna sæti fólk sem liti raunverulega á sig sem þjóna eða jafnvel ambáttir almennings? Að þetta væri samdrykkja fólks sem hefði einhverja raunverulega sannfæringu eða fylgdi einhverri þroskaðri stjórnspeki í sínu starfi? Ég ætla að leyfa mér að efast um það. Klaustursupptökurnar innihéldu ekki grátbroslegt fyllerísraus í fólki sem hefur enga sjálfsvirðingu, heldur þvert á móti hreinan og ómengaðan sannleika um íslensk stjórnmál, og jafnvel eitthvað stærra en íslensk stjórnmál. Kannski skein þarna í hinn leynda sjúkdóm sem hrjáir lýðræðið um víða veröld.

Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti Íslands mælist með fimm sinnum meira traust en Alþingi

Frá sófa til sófa um Árbæinn

Forseti Íslands mælist með fimm sinnum meira traust en Alþingi. Skyldi það eitthvað tengjast því að þegar galdrakallastofnunin kjararáð veitti sínar umdeildu launahækkanir haustið 2016 þá hafnaði hann sinni launahækkun. Og gerði það í alvörunni. Hann sagðist jafnframt vænta þess að þingið myndi vinda ofan af hækkununum í ljósi þess að svo margir þingmenn hefðu lýst andúð sinni á þeim. Hann var ekki einn um það. En það var svo ekki gert eins og allir vita. Þingmenn töluðu mikið um að þessar hækkanir væru óréttlætanlegar, en svo afþakkaði þær enginn að lokum. Nema forsetinn sem fyrir vikið nýtur fimmfalt meira trausts. Það skyldi þó ekki vera að hann hafi gluggað í nokkrar sögubækur áður en hann tók við embætti?

Til þess að endurheimta traust almennings þurfa alþingismenn kannski ekki beinlínis að leggja eigin heimili í rúst og ferðast frá sófa til sófa um Árbæinn eins og Poplícola … þótt það væri óneitanlega svolítið ferskt og flott. En saga hans og annarra mikilmenna fortíðar geymir kannski einhverjar vísbendingar um það hvernig Alþingi getur endurheimt traust almennings.

Raunverulegt hugrekki er nefnilega ekki það sem við erum vön að sjá í Disney-myndum, heldur að koma böndum á eigin hvatir og langanir.

Tengdar fréttir

Pistlar

Hver á skilið ofurlaun?

Stjórnmál

Upptökurnar frá Klaustri „styðja frásögn Báru“

Pistlar

Fastað í Borgartúni

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?