Ævintýraveröld á hjara veraldar

Mynd: Ólafur Engilebertsson / Ólafur Engilbertsson

Ævintýraveröld á hjara veraldar

25.02.2018 - 12:46

Höfundar

„Þetta eru eins og hillingar í eyðimörk að koma þarna,“ segir Ólafur Engilbertsson, einn af stofnendum félags um uppbyggingu í Selárdal. „Í raun og veru gefur þessi staður fólki von um að það sé hægt að láta drauma sína rætast.“ Félagið safnar nú á Karolinafund til að leggja lokahönd á verkið.

Að keyra holóttan veginn út Arnarfjörð, fram hjá gulum sandströndum og háum fjöllum Ketildalanna er magnað ferðalag sem býður upp á stórfenglegt landslag. Vegurinn endar í Selárdal þar sem óvænt og litrík ævintýraveröld tekur á móti þér og margfaldar magnaða náttúruupplifunina.

Naívískur alþýðustíll

Steinsteypt kirkja með hvítmáluðum býsönskum kúpli, lítið en íburðarmikið húsnæði með bleiku þaki og hvítmáluðum grískum súlum taka á móti þér. Leifur heppni stendur í hlaðinu og lítur til Ameríku, lítill strákur gefur sækú að borða, álft syndir um með ungana sína á bakinu og lítill, blár sæhestur fylgist með á meðan sex ljón standa við gosbrunn og vísa sallaróleg í íslamska listasögu. Inni í kirkjunni halda vísanir í listasöguna áfram í fallegri altaristöflu og við hlið hennar má sjá líkan af sjálfri Péturskirkju. Stíllinn er naívískur, einfaldur og hreinn, í anda alþýðulistar enda er höfundurinn einn af okkar bestu alþýðulistamönnum. Þessi ævintýraveröld, í þessu óvænta samhengi, er í boði Samúels Jónssonar, bónda í Brautarholti í Selárdal, eða listamannsins með barnshjartað, eins og nágranni hans í dalnum, Hannibal Valdimarsson kallaði hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Engilebertsson - Ólafur Engilbertsson
Samúel Jónsson á hlaðinu við Brautarholt.

Samúel Jónsson úr Selárdal fæddist árið 1884 og dó árið 1969. Hann stundaði búskap í dalnum og vann ýmis önnur störf í nálægum sveitum. Hann málaði og tálgaði og vann styttur í steypu þegar færi gafst. Hann átti enga peninga aflögu fyrr en hann fékk ellilífeyri en þá fór hann að byggja ævintýraheiminn sem enn stendur í Selárdal, þökk sé hollvinafélagi um uppbyggingu á staðnum. Samúel ferðaðist aldrei út fyrir landssteinana en þekkti fyrirmyndir sínar af myndum úr bókum og af póstkortum.  

Þegar 100 ára afmæli gömlu kirkjunnar í Selárdal var fagnað málaði Samúel altaristöflu sem hann hugðist færa kirkjunni að gjöf en þar var önnur altaristafla fyrir og hafnaði sóknarnefndin því gjöf Samúels. Hann lét þó ekki hugfallast heldur reisti sína eigin kirkju, þessa með laukspíruturninum, og hana gerði hann úr steypu sem hann blandaði úr möl úr fjörunni, sem hann bar á bakinu heim að bæ, þá 65 ára gamall.

Eins og hillingar í eyðimörk

Eftir fráfall þessa þrautseiga draumóramanns byrjuðu byggingarnar og stytturnar hægt og rólega að grotna niður og voru í hörmulegu ástandi þegar nokkrir áhugamenn um varðveislu minjanna tóku sig saman og stofnuðu félag um uppbyggingu í Selárdal. Í dag, 20 árum síðar, er búið að bjarga höggmyndunum, kirkjunni og verið er að leggja lokahönd á íbúðarhús Samúels. Félagið hefur nú hrundið af stað söfnun á Karolina Fund til að fjármagna lokahnykkinn við endurreisn þessa einstaka listagarðs á hjara veraldar.

„Þetta eru eins og hillingar í eyðimörk að koma þarna,“ segir Ólafur Engilbertsson, einn af stofnendum félags um uppbyggingu í Selárdal. „Í raun og veru gefur þessi staður fólki von um að það sé hægt að láta drauma sína rætast.“

Víðsjá ræddi við Ólaf Engilbertsson og Sólveigu Ólafsdóttur um töfra staðarins og hægt er hlusta í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Engilebertsson - Ólafur Engilbertsson
Sjálfboðaliðar frá Seeds ásamt Gerhard König við hús Samúels 2008 áður en húsið var tekið niður.