Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ævar vísindamaður skrifar ofurhetjur

Mynd: Ævar Þór Benediktsson / RÚV

Ævar vísindamaður skrifar ofurhetjur

09.08.2018 - 14:18

Höfundar

Ævar vísindamaður er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. Það er nýkomin út eftir hann bókin Ofurhetjuvíddin, í haust er svo von á tveimur léttlestrarbókum eftir hann og svo spánýju leikriti í janúar.

Ævar stendur fyrir lestrarátaki árlega og verðlaunar fimm krakka með því að fá að verða persónur í bernskubrekabókunum. „Ofurhetjuvíddin er fjórða bókin sem ég skrifa með þessum hætti, að gera krakkana að persónum,“ segir Ævar í samtali við Síðdegisútvarpið. Í þetta skiptið hugsaði hann ofurhetjukraftana út frá nöfnum krakkanna. „Ein stelpan hét til dæmis Freyja, svo ofurhetjunafnið hennar varð Flugfreyja. Svo erum við með Eld-Einar, Geisla-Guðjón, Svaka-Stefán, sem er með ofurkraft sem gerir allt svakalegra, svo ein sem heitir Karen Líf og hennar nafn breyttist ekki neitt, því líf er svo flottur kraftur,“ segir Ævar en Rán Flygenring myndskreytir bókina.

Hvernig varð rithöfundurinn Ævar til? „Ég er náttúrulega menntaður leikari og í því námi erum við alltaf að vinna með það að segja sögur, greina þær og persónurnar með ákveðnum lyklum. Þau verkfæri nýtast mér vel þegar ég sest niður sjálfur til að skapa eitthvað nýtt.“ Ævar er að skrifa leikrit um þessar mundir sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í janúar, sem heitir Þitt eigið leikrit. „Það verður leikrit fyrir alla fjölskylduna þar sem áhorfendur ráða hvað gerist. Þannig verður engin sýning eins og fjöldamargir mögulegir endar og framvindur,“ segir Ævar. „Þannig leikararnir verða sveittir við að læra utan að heila hellings af texta sem þeir munu mögulega aldrei þurfa að nota! Þetta verður mjög áhugaverð tilraun.“

Ævar segist í raun sískrifandi og í haustbyrjun koma út tvær léttlestrarbækur eftir hann, Þín eigin saga: Búkolla og Þín eigin saga: Börn Loka. Báðar bækurnar koma út með svokölluðu lesblinduletri sem hjálpar lesblindum krökkum að komast í gegnum texta. Hann er svo að leggja lokahönd á bók sem kemur út fyrir jólin, Þitt eigið tímaferðalag. „Ég hélt það yrði mjög létt og skemmtilegt, en þetta er mesta flækja sem ég hef nokkurn tímann skrifað. Bókin gengur á einum stað í hring, þannig það er hægt að lesa hana endalaust.“ Eins og það sé síðan ekki nóg þá eiga Ævar og unnusta hans einnig von á barni þá og þegar en hún var komin þrjá daga framyfir þegar viðtalið var tekið.

Rætt var við Ævar Þór Benediktsson í Síðdegisútvarpinu. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Pissupása Ævars í stærstu sögustund landsins

Bókmenntir

Lestrarstund fyrir 40.000 grunnskólabörn

Bókmenntir

Barnabókahöfundar á Íslandi í sjálfboðavinnu

Bókmenntir

Ævar Þór á meðal bestu barnabókahöfunda Evrópu