Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ættum að skoða að banna sterka orkudrykki

02.09.2018 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrval drykkja með miklu koffeini eykst sífellt hér á landi og drykkirnir verða æ sterkari. Skoða ætti að banna þá sterkustu eða afgreiða eins og tóbak, segir prófessor í næringarfræði. Nokkrar umsóknir um að flytja inn slíka drykki eru á borði Matvælastofnunar.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að breska stjórnin ræði nú að banna sölu á orkudrykkjum til barna. Stjórnin leitar nú álits um það hvort bannið skuli gilda fyrir börn yngri en átján eða sextán ára. Hér á landi er óheimilt að selja börnum yngri en átján ára sterkustu drykkina, sem þó fást í verslunum við hlið hinna sem innihalda minna koffein. Neysla á orkudrykkjum er ekki mæld sérstaklega, þótt framboðið sé að aukast.

Meira koffein en áður

Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, segir að full ástæða sé til að skoða það að banna sterkustu drykkina. „Sérstaklega að koma í veg fyrir að þeir séu aðgengilegir, að það þurfi að vera á ábyrgð ungra afgreiðslumanna að selja ekki slíka drykki til krakka yngri en átján ára.“ segir hún.

Meira koffein sé í drykkjunum en áður. „Það sem hefur hins vegar verið að gerast með þessa drykki er að styrkur koffeins í þeim hefur verið að margfaldast,“ segir Ingibjörg. „Hægt er að sjá af skýrslum sem gefnar voru út fyrir rúmlega tíu árum síðan að styrkur koffeins í drykkjum sem eru á markaði í dag er þrisvar til fimm sinnum hærri en var í sterkustu drykkjunum á þeim tíma. “

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingibjörg segir að orðið orkudrykkur sé kannski ekki lýsandi fyrir vöruna.

Bönnuðu Moose Juice í stórum dósum

Ekki þarf sérstakt leyfi fyrir drykki sem innihalda innan við 320 milligrömm af koffeini á lítra en Matvælastofnun skoðar sterkari drykki sérstaklega. „Við erum búin að veita leyfi fyrir fjórar til fimm vörur ef ég man rétt. Það eru enn þá nokkrar í umsóknarferli, nokkrar sem eru að sækja um. Markaður hér á Íslandi virðist vera góður fyrir þennan drykk,“ segir Zulema Sullca Porta, sérfræðingur hjá MAST.

Enginn drykkur hefur verið bannaður hér á landi vegna koffeininnihalds. Matvælastofnun leyfir þó ekki innflutning á drykknum Moose Juice í stórum dósum, því drykkurinn inniheldur of mikið B6-vítamín. Þá er mikið af B12 í einni dós, eða tíu þúsund prósent af ráðlögðum dagskammti. Þannig segir Zulema að ekki sé einungis litið til koffeinmagns þegar mat sé lagt á orkudrykki. „Við erum að skoða vörur í heild sinni,“ segir hún.

„Það stendur hreinlega á umbúðunum að neysla á einum skammti gæti valdið doðatilfinningu og það eru þekkt eitrunareinkenni af ofneyslu B6, taugaeinkenni og ýmislegt,“ segir Ingibjörg um orkudrykkinn Moose Juice.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Zulema segir að markaður fyrir orkudrykkjum sé góður hér á landi.

Örvandi drykkir en ekki orkudrykkir

Erfitt er hins vegar að segja hversu mikið koffein er of mikið. Matvælastofnun Evrópu gefur út viðmið um örugga neyslu fyrir fullorðna. Þar er miðað við að einn koffeindrykkur á dag sem inniheldur sem samsvarar tveimur kaffibollum eða 200 milligrömnmum af koffeini sé skaðlaus. „En svo er það bara svo mismunandi eftir  fólki,“ segir Ingibjörg.

Þá sé orðið orkudrykkur kannski ekki lýsandi fyrir vöruna. „Þessir drykkir sem eru á helst markaði í dag, mér finnst rangnefni að kalla þá orkudrykki vegna þess að suma þessara drykkja myndi ég frekar kalla örvandi drykki. Þeir innihalda örvandi efni eins og til dæmis koffein en aðeins hluti þeirra inniheldur orkuefni eins og sykur og annað.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn drykkur hefur verið bannaður hér á landi vegna koffeininnihalds.