Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ættleiðingum fer fækkandi

24.06.2018 - 18:03
Börn frá Kína á samkomu Íslenskrar ættleiðingar 2012.
 Mynd: RÚV
Ættleiðingum hefur farið fækkandi undanfarin ár, jafnt hér á landi sem annars staðar í heiminum. Framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar segir það liðna tíða að eitt land sé langstærst í ættleiðingum, eins og Kína hefur verið fyrir Ísland. 

Hátt í þúsund börn hafa verið ættleidd erlendis frá fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar frá því að samtökin voru stofnuð fyrir fjörutíu árum. Undanfarin ár hefur ættleiðingum í heiminum fækkað, og þar er Ísland engin undantekning, að sögn Kristins Ingvarssonar framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar. „Í fyrra erum við með sex börn ættleidd til Íslands, árið þar á undan voru þau fimm, árið þar á undan voru þau 20. Það var fjölgun hjá okkur sem var þvert á það sem var að gerast annars staðar í heiminum.“

Börnin eru þrjú það sem af er þessu ári. Kristinn segir að umsóknum hafi fækkað talsvert - nú séu 40-50 fjölskyldur í umsóknarferli. „Ég byrjaði að starfa hjá félaginu um áramótin 2009-10 og þá voru miklu miklu fleiri umsóknir, en þá var landslagið líka allt öðruvísi.“

Meðal annars sé nú mun minna ættleitt frá Kína, þaðan sem langflest ættleidd börn komu áður, þar sem ættleiðingum innan Kína hafi fjölgað. 

Kristinn segir Íslendinga þó betur stadda en aðrar þjóðir, þar sem ríkið er með þjónustusamning sem tryggir að börnin og fjölskyldur þeirra fái þá þjónustu sem þau þurfa. „Þetta er einstakt á heimsvísu og Íslendingar geta verið mjög stoltir af því hvernig haldið er á þessum málum hér.“

Kristinn býst við að fjöldi ættleiðinga sveiflist áfram milli ára en landslagið sé að breytast. „Hér áður fyrr voru stór ættleiðingarlönd þaðan sem við vorum að ættleiða mörg börn. Ég held að það sé búið til allrar hamingju. Ég held að það verði fáar ættleiðingar frá hverju landi en fjöldinn í heild getur orðið talsverður.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV