Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætlar að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu

26.04.2016 - 22:23
Sturla Jónsson býður sig fram til embættis forseta Íslands. Hann kveðst ætla að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef 25 þúsund undirskriftir safnast.

Sturla er fæddur og uppalinn í Reykjavík og verður fimmtugur á árinu. Hann hefur verið á sjó, starfað við ýmsar iðngreinar og sem atvinnubílstjóri. Hann bauð sig fram til Alþingis árið 2013 og talar fyrir sömu baráttumálum og þá. 

„Það eru náttúrlega þau baráttumál sem ég hef staðið fyrir í að verða átta ár, þegar bankarnir réðust á okkur og fólkið í landinu. Ég varð fyrir því eins og þúsundir annarra. Upphafið er að verja mitt heimli. Þannig hófst baráttan fyrir alvöru. Ég byrjaði 2008 í mótmælum í Ártúnsbrekkunni út af hækkun á olíugjaldi sem leiddi aftur til hækkunar á lánunum okkar í landinu.“

Hvernig getur þú beitt þér fyrir þessum baráttumálum sem forseti? „Öll lög sem samþykkt eru á Alþingi fara öll í gegnum Bessastaði. Það þarf að undirrita þau. Við getum tekið Árna Páls lögin sem dæmi sem fóru í gegnum Bessastaði sem heimilaði að reikna lánin okkar aftur í tímann og kostaði fleiri þúsund fjölskyldur heimili sín. Þetta hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Myndir þú vísa mörgum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu? „Ég er búinn að taka þá ákvörðun, fái ég 25 þúsund undirskriftir þá fer það í þjóðaratkvæðagreiðslu, sama hvað.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV