Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætlar að sitja áfram í velferðarnefnd

09.12.2018 - 20:00
Mynd:  / 
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokks, ætlar að sitja áfram í velferðarnefnd Alþingis. Forseti Alþingis telur það fordæmalaust að sérfræðingar neiti að vinna með þingnefnd vegna eins þingmanns.

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum neitar að vinna með velferðarnefnd Alþingis vegna þess að Anna Kolbrún situr í nefndinni. Klaustursmálið sé fræðafólki sem þar starfar áfall og sendu þau Steingrími J. Sigfússyni þingforseta bréf þar sem segir meðal annars: „Þeir djúpstæðu fordómar, mannfyrirlitning, hroki og vanvirðing sem þar birtist í garð fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa gerir það að verkum að við munum ekki taka þátt í samstarfi við Velferðarnefnd Alþingis meðan Anna Kolbrún Árnadóttir á sæti í nefndinni.“

Anna Kolbrún vildi ekki veita viðtal í dag en sagðist í samtali við fréttastofu hafa tekið ákvörðun um að sitja áfram. Hún ætlaði að sinna sinni vinnu líkt og henni bæri skylda til, þar með talið í velferðarnefnd. Hún segir að það hafi ekki komið til tals að hún víki úr þeirri nefnd en þegar niðurstaða siðanefndar liggi fyrir muni hún endurskoða alla hluti.

Nýskeð og án fordæma

Steingrímur segir að lítið annað sé hægt að gera en virða þeirra niðurstöðu. „Við þurfum þá að fara yfir það hjá okkur hvaða vandamál þetta skapar í áframhaldandi vinnu þingnefndarinnar. En þetta er nú nýskeð og eiginlega án fordæma það ég best veit. Þannig við þurfum aðeins að fara yfir það.“

Þig rekur ekki minni til þess að einhver aðili hafi áður neitað að vinna með nefnd út af einum þingmanni? „Nei ég þekki enga hliðstæðu þess. Það hefur svo sem kastast kannski eitthvað í kekki milli einstakra þingnefnda og einstakra stofnana eða ráðuneyta svona tímabundið út af einhverju en það hefur aldrei leitt til þess að það væri ekki hægt að greiða úr því, eiga samstarf áfram,“ segir Steingrímur. 

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segir sniðgöngu fræðafólksins hafa mjög alvarlega áhrif á störf nefndarinnar. „Ég er enn þá bara dálítið að melta þetta. Og ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að taka upp líka bara með þingforseta. Og bara skoða þetta. Alvarlega. Ég veit ekkert hvernig við eigum að bregðast við þessu eins og staðan er núna. Ég þyrfti bara að eiga samráð við fleiri og melta þetta aðeins.“