Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ætlar að kæra ákvörðun um niðurfellingu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Ekki er útséð um hvort skattsvikamálin, sem héraðssaksóknari hefur fellt niður, fari ekki fyrir dómstóla því skattrannsóknarstjóra ætlar að kæra ákvörðunina er varða nokkur málanna. Héraðssaksóknari á eftir að taka ákvörðun um 90 skattsvikamál til viðbótar sem varða samtals 20 milljarða króna.

Ljóst var að dómur Mannréttindadómstólsins frá því í vor sem taldi íslenska ríkið hafa brotið mannréttindi á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni myndi hafa afleiðingar. Mörg mál fóru í frestun hjá héraðssaksóknara og dómstólum í framhaldinu á meðan beðið var dóms Hæstaréttar í ekki ólíku máli sem féll í september.
Héraðssaksóknari hefur nú fellt niður 62 mál sem skattrannsóknarstjóri hafði vísað til hans til refsimeðferðar. Embætti skattrannsóknarstjóra birti lista yfir þau mál í dag.
„Það er auðvitað súrt að því leytinu til að þetta eru mál sem búið er að vinna hér og eru upplýst mál þar sem rökstuddur grunur er um brot,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Hún segir að miðað við mælikvarða í dómum Mannréttindadómstólsins og Hæstaréttar sé ljóst að ekki séu forsendur til að halda áfram með kannski þorra málanna.
„En það eru þarna nokkur sem við höfum aðeins aðra sýn á heldur en héraðssaksóknari. Og þá er leiðin sú að kæra þá ákvörðun til ríkissaksaksóknara og við munum gera það í þeim tilvikum, sem að þá út af standa.“
Héraðssaksóknari eru nú að fara yfir afganginn af þeim ríflega 150 málum sem skattrannsóknarstjóri hefur sent honum. Fleiri mál á því eftir að fella niður. Bryndís telur að dómar Mannréttindadómstólsins og Hæstaréttar tengist ekki hluta þeirra mála. Listinn yfir niðurfelldu málin varða samtals 9,7 milljarða króna þar af tæpa 5,7 milljarða í vanframtaldar tekjur og fjóra milljarða í vanframtaldar fjármagnstekjur. Skattaskjólsgögnin, sem skattrannsóknarstjóri er með, varða hluta þessara mála. En þessi 110 mál sem héraðssaksóknari á eftir að taka ákvörðun um varða samtals rúma 20 milljarða króna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hluta lista sem skattrannsóknarstjóri birti í dag
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV