Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ætlar að hlusta á athugasemdir íbúa

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Ekki hefur verið ákveðið hvort ríkið hættir að styrkja flug til Hafnar, Þórshafnar og Vopnafjarðar, í samræmi við drög að stefnu ríkisins. Ráðherra segir að hlustað verði á sjónarmið íbúa. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti nýverið drög að heildarstefnu ríkisins í almenningssamgöngum, sem er afrakstur vinnu sérfræðinga. 

Markmiðið er að samþætta flug, ferjur og almenningsvagna. Í grein í Fréttablaðinu sagði ráðherra: „Nýrri stefnu ríkisins um almenningssamgöngur sem mótuð hefur verið í fyrsta sinn er ætlað að tryggja að þær verði raunhæfur valkostur fyrir alla landsmenn.“

Hámark einn styrktur samgöngumáti á leið

Í dag styrkir ríkið áætlunarflug til sex staða á landinu. Í skýrslunni er lagt til að í stað flugs til Vopnafjarðar og Þórshafnar verði skipulagðar aksturstengingar við flug á Húsavík og Egilsstöðum. Þá sé strætó hagstæðari tenging en flug við Höfn í Hornafirði og er talið óeðlilegt að halda úti tveimur styrktum samgöngumátum á þeirri leið. Lagt er til að hætta að styrkja flug til þessara staða fyrir 1. apríl á næsta ári og spara um 150 milljónir á ári. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Norlandair flýgur til Þórshafnar og Vopnafjarðar

Sigurður Ingi segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar. Forsenda þessarar vinnu sé markmið stjórnvalda um að efla almenningssamgöngur. „Stefnumótunin fólst í því hvernig gerum við þjónustuna betri, hvernig nýtum við fjármagnið betur og niðurstaða þessa starfshóps sem er nú úti í samráðsgátt var með þessum hætti að það væri ákveðin forsenda að það væri bara einn samgöngumáti styrktur á hvern stað,“ segir Sigurður Ingi. 

Samráð ekki sýndarmennska 

Hann ætlar ekki að leggja mat á þessar hugmyndir fyrr en að loknu samráðsferli. Tillögurnar komu þingmönnum og sveitarstjórnarfólki í opna skjöldu. Sveitarstjórinn í Langanesbyggð, Bæjarráð Hornafjarðar og hreppsnefnd Vopnafjarðar hafa mótmælt harðlega.

Nánast allar umsagnir í samráðsgátt snúa að þessum þætti skýrslunnar og viðbrögðin eru afar neikvæð. „Þau eru einmitt í anda þess að ég hafi nú þegar tekið ákvörðun og samráðið sé sýndarmennska og þvæla, en þannig er það ekki. Við erum núna einmitt í þessari lýðræðislegu samráðsvinnu þar sem við hlustum á íbúana áður en við tökum ákvarðanir,“ segir Sigurður Ingi.