Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla í Þjórsárdal að mótmæla heræfingu

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Félagar í Vinstri grænum ætla að gera sér ferð í Þjórsárdal um næstu helgi til að mótmæla varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins. Forsætisráðherra neitar því að mótmælin séu henni óþægileg. Þátttaka í ríkisstjórn skerði ekki tjáningarfrelsi fólks. 

Flokksráð Vinstri grænna samþykkti átta ályktanir á fundi sínum í sal Breiðabliks í Kópavogi í dag. Umræða um vinnumarkaðinn var áberandi.

„Enda er það algerlega ólíðandi að ekki sé almennilega staðið að málum þegar kemur að keðjuábyrgð, félagslegum undirboðum, málefnum starfsmannaleiga og fleira. Sömuleiðis var rætt um kjarasamninga fram undan og lögð áhersla á að þar geri stjórnvöld hvað þau geta til að greiða fyrir samningum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.

Þá var samþykkt ályktun þar sem hvatt er til þess að hætt verði við varnaræfingu Altantshafsbandalagsins um næstu helgi sem fer meðal annars fram í Þjórsárdal.

„Það liggur auðvitað fyrir að okkar afstaða til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu er óbreytt. Við hins vegar föllumst á það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að fylkja okkur á bak við þjóðaröryggisstefnuna og þar er vera okkar í Atlantshafsbandalaginu eitt af mörgum grundvallaratriðum,“ segir Katrín.

„Við náttúrulega erum að fá fregnir af því að merkar fornminjar eru að koma í ljós í Þjórsárdal. Síst viljum við að einhverjir hermenn vaði þarna yfir og raski þeim. Og ég yrði ekki hissa þó allnokkrir úr þessum hópi myndu leggja leið sína um næstu helgi í Þjórsárdal í menningarferð til þess að kynna sér fornminjar og annað slíkt,“ segir Stefán Pálsson, fulltrúi í flokksráði Vinstri grænna.

Áttu von á mótmælum þar gegn heræfingunni?

„Já, ég verð nú undrandi ef þessu verður tekið þegjandi,“ segir Stefán.

Verður það ekkert óþægilegt fyrir þig sem forsætisráðherra ef þínir flokksfélagar fara inn í Þjórsárdal og mótmæla þessari æfingu?

„Nei, við erum auðvitað þannig hreyfing að við leggjum áherslu á það að það að taka þátt í ríkisstjórn skerðir ekki málfrelsi nokkurs manns. Þannig er það. En hins vegar eins og ég segi þá erum við áfram hér eftir sem hingað til fullkomlega trú því sem við höfum skrifað upp á í stjórnarsáttmála,“ segir Katrín.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV