Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Ætla ekki að mæta á fundinn

07.10.2010 - 07:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðismenn ætla ekki að mæta á fund með ríkisstjórninni í dag til að ræða skuldastöðu heimilanna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag. Ríkisstjórn hefur boðað fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna aftur til fundar í dag.

Bjarni Benediktsson segir að Sjálfstæðisflokkurinn taki ekki þátt í samstarfi við ríkisstjórn sem sé á rangri braut. Í tilkynningu segir formaðurinn að samstarf við aðra flokka gangi ekki þannig fyrir sig að ríkisstjórnin velji úr þau mál sem hún sé komin í ógöngur með og óski þá eftir því að aðrir komi henni til bjargar. Hann segir að tillögur um lausn á vanda heimilanna séu fyrir löngu komnar fram í þinginu.

Þá hafi ríkisstjórnin fullyrt í mars að búið væri að ná utan um skuldavandann. Hún hafi ranga stefnu í efnahagsmálum sem muni á endanum valda enn frekari áföllum fyrir heimilin í landinu.

Þjóðin þurfi nýja ríkisstjórn en ekki samstarf flokka um einstök mál sem þessi ríkisstjórn sé ófær um að leysa.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Þór Saari, talsmanni Hreyfingarinnar, að hann efist um að fundurinn skili nokkru. Hreyfingin ætli þó að gefa ríkisstjórninn einn séns enn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í blaðinu að fundirnir séu sýndarmennska, haldnir til þess eins að geta sagst hafa haft samráð við stjórnarandstöðuna en svo komi ekkert út úr þeim. Starfandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, fari á fundinn.