Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Ætla að verða helvíti flottir þingmenn“

22.08.2015 - 12:35
Guðmundur Steingrímsson
 Mynd: RÚV/Kastljós
Guðmundur Steingrímsson fráfarandi formaður Bjartrar framtíðar segist ætla að verða helvíti flottur óbreyttur þingmaður, eftir að hann lætur af embætti formanns flokksins. Heiðu Kristínu Helgadóttur líst vel á að Guðmundur og Róbert Marshall þingflokksformaður víki.

Guðmundur Steingrímsson staðfesti við Fréttablaðið í dag að hann hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem formaður Bjartrar framtíðar. Fylgi við Bjarta framtíð hefur dalað mjög í skoðanakönnunum. Flokkurinn er með sex þingmenn en myndi ekki ná inn á þing í dag samkvæmt könnunum. Guðmundur segist aðspurður hætta að hluta til vegna þess. 

„Ég hef alveg heyrt það mjög skýrt innan okkar raða að það er eftirspurn eftir að aðrir spreyti sig og mér finnst sjálfsagt að verða við því,“ segir Guðmundur. „Mér finnst ekkert lykilatriði fyrir mig að vera í formannsembætti og mér finnst í sjálfu sér ekkert lykilatriði hver gegnir þessum embættum, það er heildin sem skiptir máli.Og ég ætla að leggja mitt af mörkum til að heildin verði sem frábærust.“

Róbert Marshall hættir líka sem formaður þingflokksins en hann heldur áfram á þingi?

„Já, við ætlum að vera helvíti flottir óbreyttir þingmenn, við Robbi“ segir Guðmundur.

Heiða Kristín Helgadóttir sem er varaþingmaður og var stjórnarformaður flokksins þar til í desember, sagðist ekki geta tekið sæti á Alþingi á meðan Guðmundur væri formaður. Henni líst vel á að Guðmundur og Róbert ætli að stíga til hliðar. Heiða Kristín ætlar að taka sæti Bjartar Ólafsdóttur á Alþingi þegar hún fer í fæðingarorlof.

Guðmundur telur að þrátt fyrir gagnrýni Heiðu Kristínar muni starf þingflokksins ganga vel og segir að allir séu í stuði. 

Heiða Kristín lýsti því yfir í Vikulokunum á Rás 1 á dögunum að hún treysti sér vel til að taka við formennsku í flokknum ef hljómgrunnur væri fyrir því. Björn Blöndal, oddviti flokksins í Reykjavík, hefur lýst því yfir að hann vilji Heiðu sem næsta formann. Heiða sagði í samtali við fréttastofu í dag að hún hefði ekki tekið endanlega ákvörðun um að bjóða sig fram. 

Nýr formaður verður kjörinn á ársfundi flokksins eftir tvær vikur. Guðmundur ætlar að leggja fram tillögu á fundinum um fólk skiptist á að gegna formennsku.  Óttar Proppé útilokar ekki að gefa kost á sér, hann segist ekki ganga með formennsku í maganum, en sé tilbúinn að bera þá ábyrgð sem þurfi. Hann sé í stjórnmálum vegna hugsjóna og til að gera gagn. Brynhildur Pétursdóttir þingmaður útilokar heldur ekki að gefa kost á sér. 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV