Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ætla að vera „öðruvísi“ stjórnarandstaða

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að flokkurinn muni leggja áherslu á „öðru vísi stjórnarandstöðu“. Flokkurinn hyggst styðja ríkisstjórnina í góðum verkum en ekki veita henni hlutleysi. Viðreisn ætlar að bjóða sem víðast fram í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári.

„Satt best að segja líst mér þokkalega á þetta ef ég á að vera hreinskilin. Þetta er vonandi eitthvað nýtt. Ég hefði kannski viljað sjá breiðari stjórn, þetta er svolítið mikið vinstra megin,“ sagði Þorgerður Katrín um ríkisstjórnarsamstarfið sem nú er í farvatninu. Hún var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2. Viðtalið má nálgast í spilaranum hér að ofan.

Hún segir að Viðreisn muni leggja áherslu á málefnalega stjórnarandstöðu. „Við munum styðja góð mál en við munum veita málefnalega stjórnarandstöðu í málum á borð við miklar skattahækkanir sem vinstri flokkarnir boðuðu fyrir kosningar. Við munum reyna að passa upp á að almennar álögur á fólk í landinu aukist ekki. Auk þess munum við reyna að sporna við almennu afturhaldi. Við ætlum ekki að veita stjórninni hlutleysi. Við verðum í stjórnarandstöðu en það verður kannski dálítið öðruvísi stjórnarandstaða,“ sagði hún.

Spurð hvort Viðreisn sé líkleg til að taka þátt í stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins ef formlegar stjórnarmyndunarviðræður vinstri flokkanna ganga ekki upp segir hún það ólíklegt.

„Við myndum ekki taka þátt í stjórnarsamstarfi með þessum flokkum,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún telur einnig ólíklegt að Viðreisn verði boðið að borðinu ef til slíkra viðræðna kæmi.

Hún segir að Viðreisn muni leggja áherslu á að byggja upp bakland sitt í komandi sveitarstjórnarkosningum á næsta ári. „Það er ekki komin mynd á þetta hjá okkur ennþá. Við ákváðum að bíða með þetta þar til eftir þessar kosningar,“ segir hún en tekur fram að flokkurinn hyggist bjóða víða fram. „Ég sé fyrir mér að við bjóðum fram undir okkar nafni en svo gæti líka verið að við bjóðum einhvers staðar fram í bandalögum,“ sagði hún.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV