Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ætla að útbúa laxastiga í Úlfarsá

11.02.2014 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Í Úlfarsá eiga laxar erfitt með að komast leiðar sinnar á þurrum sumrum vegna þess hve vatnslítil hún verður. Nú á að létta löxum og veiðimönnum lífið, með náttúrulegum laxastiga.

Úlfarsá á upptök sín í Hafravatni ofan við Reykjavík og fellur þaðan um byggð niður til sjávar. Í ánni veiðist bæði urriði og lax, en það er galli á gjöf Njarðar, segir Guðmundur B. Friðriksson, stjórnarmaður í Veiðifélagi Úlfarsár. Mikið af laxinum liggi í hyl neðarlega í ánni og komist ekki ofar því að fossinn í henni reynist honum of erfiður viðureignar.

„En nú á að reyna að bæta úr því,“ segir Guðmundur. „Við ætlum að reyna að koma fyrir náttúrulegum laxastiga í ánni og koma fiskum þannig upp hana.“

Til stendur að fleyga bolla og rásir í klöppina samkvæmt ráðleggingum Veiðimálastofnunar. „Og þeir verða með okkur í því og veita okkur ráðleggingar með verkið,“ segir Guðmundur. Hann bætir því við að alltaf komist eitthvað af laxi upp fyrir fossinn, en hann beri þess gjarnan merki að hafa barist um á klöppinni.

Þetta er ekki fyrsta tilraunin til að auðvelda laxinum uppgönguna. Úti í ánni eru sandpokar sem eiga að stýra rennslinu á ákveðnum stöðum til að auðvelda laxinum að komast upp. Með náttúrulega laxastiganum á að reyna að komast hjá því að nota pokana.

Að jafnaði veiðast um 200 laxar í Úlfarsá á sumri, á tvær stangir. Það gæti þó veiðst meira, því laxinn gefst upp á að komast upp ána, og leitar annað.

„Hann gefst upp og fer í Elliðaárnar og í Leirvogsána. Gönguseiði sem hafa verið merkt hér, finnast þar,“ segir Guðmundur. Það gæti breyst því til stendur að fleyga klöppina á næstu vikum.