Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ætla að standa við búvörusamning

19.08.2017 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ekki stendur annað til en að stjórnvöld standi við búvörusamning sem samþykktur var á Alþingi síðasta haust, að sögn Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra. Hann segir mikilvægt að finna lausn til framtíðar á vanda sauðfjárbænda.

Afurðaverð til sauðfjárbænda lækkar um 35 prósent í haust og hafa Landssamtök sauðfjárbænda lýst yfir áhyggjum af því að fjöldi bænda verði gjaldþrota. Þriðjungur lambakjöts hefur verið fluttur úr landi og er minni sala þar rakin til sterks gengis krónunnar. Þá hefur lokun á Rússlandsmarkaði haft áhrif. 

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, lýsti því yfir á dögunum að ekki komi til greina að auka framlög til sauðfjárbænda nema búvörusamningur, sem Alþingi samþykkti síðasta haust, verði endurskoðaður.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

 

Bjarni segir að ekki standi annað til að standa við búvörusamninginn. Nú sé kallað eftir lausnum til viðbótar við hann. „Það er í gildi búvörusamningur og það stendur ekkert annað til að stjórnvöld standi við hann. Nú er verið að kalla eftir því að menn komi með eitthvað til viðbótar. Það eru ýmsar leiðir í því. Sumar hafa farið í það ýta vörum út af markaðnum. Aðrar leggja áherslu á að draga úr stærð sauðfjárstofnsins. Svo er mögulega hægt að fara blöndu af þessum leiðum,“ segir Bjarni. Hann kveðst vilja að fundin verði lausn á vanda sauðfjárbænda til framtíðar. „Ekki að við séum bara að setja plástur á þessi sár, heldur í samvinnu við bændur að finna leið til að gera þeim kleift að hafa betri afkomu.“

Bjarni segir mikilvægt að leysa þann vanda sem kemur upp í sauðfjárrækt hverju hausti.

Kallar það ekki einmitt á endurskoðun búvörusamningsins?
„Þetta er mjög stór samningur sem er mjög kaflaskiptur á sama tíma og það sem snýr að sauðfjárræktinni í landinu er það sem menn eru að horfa á sérstaklega núna. Samningurinn gerir beinlínis ráð fyrir að menn séu í samtali á samningstímanum og við skulum sjá hvað það samtal leiðir af sér.“