Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla að stækka leiðakerfið og auka hlutafé

17.10.2018 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Leiðakerfi Wow air verður stækkað um 15 prósent á næsta ári, segir forstjóri flugfélagsins. Mestu muni um Deli á Indlandi sem kalli jafnframt á fleiri flug til Bandaríkjanna. Safna þarf meira fé til að tryggja meiri vöxt og hlutafjárútboð er á næsta leiti. 

Blásið hefur hressilega um Wow air undanfarið þegar flugfélagið stóð í skuldabréfaútboði, þar sem söfnuðust 50 milljónir evra, og því ekki óeðlilegt að einhverjir hafi talið að fyrirtækið væri að draga saman seglin þegar það tilkynnti að það myndi hætti flugi til þriggja borga vestanhafs; Cincinatti, Cleveland og St. Louis. 

„Þær einfaldlega stóðust ekki væntingar okkar og við teljum okkur geta nýtt flota okkar betur annars staðar,“ segir Skúli Mogensen forstjóri Wow air.

Nýlega var Orlandó á Flórída bætt við og í næstu viku verður nýr áfangastaður í Norður Ameríku kynntur. 

„Í heildina þá ætlum við að stækka leiðakerfið okkar um ca. 15 % á næsta ári þ.a. það er áfram vöxtur hjá Wow.“

Stærsta viðbótin er Dehli á Indlandi.

„Við sjáum núna hvert Indverjar vilja helst fljúga þ.a. við erum líka að mæta þeirri þörf þ.a. að við erum að fjölga tíðni núna á helstu og stærstu núverandi stöðum okkar líka.“

Þegar þið stóðuð í þessu skuldabréfaútboði, stóð þetta þá einhvern tíma tæpt?

„Ja það er náttúrulega alveg klárt að við þurftum á fjármagninu að halda.“

Velta Wow á þessu ári verður 70 milljarðar, segir Skúli, þar starfi 1500 manns og farþegar, sem það flytji til og frá landinu, séu þrjár og hálf milljón talsins.

„Til að tryggja áframhaldandi vöxt fyrirtækisins þá munum við þurfa áframhaldandi fjármögnun ella hæga á. Þannig að það er alveg ljóst að það kostar að búa til flugfélag af þessari stærðargráðu.“

Hvenær þurfið þið svo að fara í hlutafjárúboð eða að fá meira fjármagn?

„Við erum þegar byrjuð að undirbúa næstu skref og væntum þess að ljúka því svona á næstu mánuðum skulum við segja.“