Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætla að sleppa aprílgabbi vegna falsfrétta

31.03.2017 - 14:03
Skjámynd af Smalandsposten um engin aprílgöbb þetta árið
 Mynd: smalandsposten
Fjölmiðlar í Noregi og Svíþjóð, þar á meðal NRK, VG og Aftenposten, ætla að sleppa hefðbundu aprílgabbi á morgun. Ritstjórar segja að umræðan um falsfréttir hafi haft áhrif á þessa ákvörðun; margir óttast að gabbfréttir muni breiðast út og verða deilt sem sannleika á samfélagsmiðlum.

Sagt er frá þessu á AFP fréttaveitunni, og meðal annars vitnað i Magnus Karlsson, ritstjóra Smalandsposten í Svíþjóð, sem lýsir því yfir að hann vilji ekki að gabbfréttum verði dreift undir merkum dagblaðins. „Við skrifum alvöru fréttir. Líka 1. apríl,“ segir Magnus. Fleiri sænsk dagblöð hafa lýst því yfir að þau muni ekki birta gabbfréttir á morgun, þar á meðal Dalarnas Tidningar, Hallpressen og Vasterbotten Kuriren.

„Við höfum gert mjög vel heppnaðar gabbfréttir í gegnum tíðina,“ segir Ingvar Naslund, ritstjóri Vasterbotten Kuriren. „Hins vegar hefur umræðan um áreiðanleika fjölmiðla verið sterk í tengslum við falsfréttir, og þess vegna ákváðum við að sleppa gabbinu þetta árið.“

Nokkrir af stærstu fjölmiðlum Noregs ætla að gera slíkt hið sama, þar á meðal NRK, Aftenposten, VG og Dagbladet. 

 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV