Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla að reisa menningarhús á Sauðárkróki

Mynd með færslu
 Mynd: Mennta- og menningarmálaráðun - Skagafjörður

Ætla að reisa menningarhús á Sauðárkróki

09.05.2018 - 16:01

Höfundar

Reisa á menningarhús á Sauðárkróki sem viðbygging við Safnahús Skagfirðinga. Um helgina undirrituðu Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, viljayfirlýsingu um áframhaldandi samstarf um fjármögnun og undirbúning menningarhússins.

Allir landsmenn njóti lista og menningar

„Það er mikilvægt að landsmenn fái notið lista og menningar og geti tekið þátt í slíku starfi um allt land. Við viljum skapa góð skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs og þar skipta menningarhúsin sköpum,” er haft eftir Lilju í tilkynningu frá ráðuneytinu.  

Ríkið borgar meira en helming

Viðbyggingin og endurbætur á húsinu eiga að rúma bókasafn, listasafn og skjalasafn auk rýmis fyrir varðveislu og sviðslistir. Undirbúningur og stefnumótun vegna menningarhúsa er á vegum sveitarfélaga á hverjum stað sem og verkefnastjórn framkvæmda. Fram kemur í tilkynningunni að fyrirhuguð kostnaðarhlutdeild ríkisins í framkvæmdinni sé 60 prósent á móti 40 prósenta hlut sveitarfélagsins, líkt og við byggingu annarra menningarhúsa á landsbyggðinni. Stefnt er að því að þarfagreining verkefnisins liggi fyrir í árslok 2018.