Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætla að láta stjórnmálamenn skammast sín

18.02.2018 - 16:50
Hópur nemenda við skólann í Parkland í Florida, þar sem byssumaður myrti sautján manns fyrr í vikunni, tilkynntu í dag að þau ætli að skipuleggja kröfugöngu í Washington 24.mars, til að vekja athygli á nauðsyn þess að herða löggjöf um byssueign. Gangan verður kölluð „March for our lives“ og með henni vilja nemendurnir láta þá stjórnmálamenn skammast sín, sem þiggja greiðslur frá samtökum byssueigenda, National Rifle Association (NRA). Einnig stendur til að skipuleggja göngur í öðrum borgum.

„Allir stjórnmálamenn sem þiggja fé frá NRA eru ábyrgir fyrir atburðum eins og þessum,“ sagði einn nemendanna, Cameron Kasky, í viðtali við fréttastofu ABC sjónvarpsstöðvarinnar. „Þegar allt kemur til alls þá eru þessi samtök að upphefja og viðhalda þessum viðhorfum um byssur.“

Nemendurnir sem standa fyrir þessari kröfugöngu segjast vilja tala við stjórnmálaleiðtoga á borð við Donald Trump, Bandaríkjaforseta, Marco Rubio, öldungadeildarþingmann frá Floria, og Rick Scott, ríkisstjóra Florida. „Við viljum koma á nýju viðmiði, þar sem stjórnmálamenn þurfa að skammast sín fyrir að þiggja fjármuni frá NRA,“ sagði Kasky. 

Nemendur úr Marjory Stoneman Douglas skólanum í Parkland, þar sem árásin var gerð síðasta miðvikudag, hafa verið áberandi í bandarískum fjölmiðlum að undanförnu, þar sem þeir hafa kallað eftir hertum reglum um byssueign og að stjórnmálamenn taki ábyrgð. 

 

 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV